Á rúmlega tvöföldum hámarkshraða
Á annan tug ökumanna hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum dögum. Einn þeirra, ökumaður á þrítugsaldri, mældist á rúmlega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða, en hann ók á 106 í Keflavík, þar sem hámarkshraði er 50 km. Hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.
Þá hafði lögregla afskipti af fimm drengjum á fjórum vespum og voru allir hjálmlausir, einnig sá sem reiddur var. Þeim var veitt tiltal.
Ökumaður sem lögregla hafði svo afskipti af í Keflavík framvísaði ökuskírteini sem reyndist vera grunnfalsað. Hann verður kærður fyrir skjalafals og akstur bifreiðar án réttinda.