Á réttu róli og beint á toppinn
Börn í þremur efstu bekkjum grunnskóla í Reykjanesbæ reykja að jafnaði síður en börn annars staðar á landinu. Þá hafa hlutfallslega færri nemendur í þessum bekkjum í Reykjanesbæ drukkið áfengi en meðaltalið á landsvísu segir til um. Þetta sýna niðurstöður spurningakönnunar sem lögð var fyrir um 85 prósent nemenda í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi. Hjá fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar fagna menn þessum vitnisburði og þakka markvissu starfi Reykjanesbæjar með bæði foreldrum og nemendum á undanförnum árum. Fjölmargir aðilar innan bæjarkerfisins koma að forvarnarmálunum, s.s. fjölskyldu- og félagsþjónustan, fræðsluskrifstofan, forvarnafulltrúi, Saman-hópurinn og fleiri. Víkurfréttir tóku hús á þeim Eiríki Hermannssyni fræðslustjóra Reykjanesbæjar og Gylfa Jóni Gylfasyni yfirsálfræðingi skrifstofunnar, til að ræða þessar jákvæðu niðurstöður könnunarinnar.
„Það sem er áhugavert við þetta er að það eru aðilar utan svæðis sem gera könnun á landsvísu á ýmsu í sambandi við unglinga. Niðurstaðan er sú að krakkar í Reykjanesbæ reykja minna, drekka minna og þessi litli hópur sem notar fíkniefni notar efnin í minna mæli en krakkar af öðrum stöðum á landinu. Það er kjarnaniðurstaðan í þessu,“ segir Gylfi Jón.
„Það sem er athyglisvert er að við vorum í mjög slæmum málum. Fyrst þegar þessi rannsókn var gerð árið 1997 og við létum vinna úr þeim gögnum fyrir okkur. Þá kom Reykjanesbær mjög illa út og árangurinn fyrir neðan landsmeðaltal. Í framhaldinu héldum við mikinn fund í Stapa þar sem talað var um svarta skýrslu. Menn voru sjokkeraðir á þessum fundi. Niðurstaðan varð hins vegar til þess að bærinn tók félagslíf unglinga föstum tökum. Útivistartími var samræmdur og nánu samstarfi komið á milli skólanna, íþróttafélaga og foreldrasamfélagsins. Við breyttum öllu verklagi varðandi félagslíf unglinga með góðum árangri,“ segir Eiríkur Hermannsson. Einnig hefur Reykjanesbær kennt foreldrum að ala upp börnin sín á uppeldisnámskeiði sem heitir SOS - Hjálp fyrir foreldra, en ríflega 1.500 foreldrar hafa sótt námskeiðið á sl. 10 árum en námskeiðið er kostað af Reykjanesbæ.
Reykjanesbær á réttu róli
Í kjölfar áfallsins árið 1997 varð FFGÍR, samtök foreldrafélaga og foreldraráða grunnskólanna í Reykjanesbæ, til og farið var í verkefnið Reykjanesbær á réttu róli í samstarfi fjölmargra aðila í Reykjanesbæ.
„Smá saman fórum við að sjá betri mælingar, en það er búið að mæla árangurinn mjög reglulega í rúman áratug. Nú tvö ár í röð hefur Reykjanesbær verið að fá niðurstöður sem eru marktækt betri en landsmeðaltal og meðaltal höfuðborgarsvæðisins.“ segir Eiríkur.
Álfgeir Logi Kristjánsson hjá Rannsóknum og greiningu er með doktorsverkefni þar sem hann sýnir fram á það að þau sveitarfélög sem hafa notað markvisst þessar niðurstöður í forvarnastarfi, eru að ná betri árangri en önnur sveitarfélög. Álfgeir hefur nefnt Reykjanesbæ sérstaklega sem gott dæmi um árangur. Reykjanesbær hefur farið úr þeirri stöðu að hafa staðið sig illa og yfir í að vera á meðal þeirra bestu og hreinlega staðið sig best á landsvísu.
Gylfi Jón segir að niðurstaðan nú sé þeim mun áhugaverðari vegna þess að á svæðinu sé hátt atvinnuleysi og hér sé kreppan að bíta hvað fastast en í því ástandi hafa menn frekar átt von á meira veseni og óreglu, frekar en hitt. „Hjá okkar krökkum í efstu bekkjum grunnskóla er þetta hins vegar öfugt, sem er mjög jákvætt,“ segir Gylfi Jón.
Stillt upp sem líflínu
-Nú höfum við náð þessum árangri en hvernig viðhöldum við honum?
„Við höfum verið að nálgast forvarnamálin mjög víða. Þetta hefur verið samþætt verkefni hjá okkur. Bæjarstjórinn hefur stillt þessu upp sem líflínu þar sem menn eru að koma að með ýmsum hætti. Við byrjum með SOS-verkefninu hjá foreldrum tveggja ára barna og síðan er koll af kolli eitthvað sem heldur utan um foreldrana og verkefnið hefur verið hugsað þannig að fylgja börnunum alla leið.
Þegar við breyttum skólagerðinni hér í gamla daga, þá var það líka ákvörðun sem var tekin á þessum forsendum, þegar við hættum með stóra unglingaskólann og fórum að setja upp heildstæðu skólana. Það var rökstutt með niðurstöðum úr þessu og þeim orðum að við ætluðum að leyfa börnum að vera börn lengur. Það var markmiðið. Þetta eru orð sem voru sögð fyrir um 12 árum síðan,“ segir Eiríkur.
Gylfi Jón segir að það sé augljóst að forvarnir virki. „Síðan getur maður endalaust velt því fyrir sér hvers vegna við höfum verið að koma betur út en landsmeðaltalið síðustu tvö ár. Við þurfum að skoða hvað er öðruvísi hjá okkur en öðrum sveitarfélögum. Á samdráttartímum þarf að passa sig á því að spara með því að skera niður forvarnarverkefni“.
Óvenju gott foreldrastarf
-Hvað er öðruvísi hér en í öðrum sveitarfélögum?
„Það er óvenjulega gott foreldrastarf í Reykjanesbæ í gegnum FFGÍR. Þá hefur Reykjanesbær verið markaðssettur sem íþróttabær,“ segir Gylfi Jón og Eiríkur bætir við: „Við höfum einnig verið með uppeldisnámskeið fyrir foreldra og hvatagreiðslu-námskeið. Þá held ég að Reykjanesbær hafi verið eitt af fyrstu sveitarfélögunum til að veita styrki til samtaka foreldrafélaganna, FFGÍR. Þetta hefur ekki verið stór styrkur, en nóg til að þau hafi getað haldið sínu starfi þokkalega áfram. Þetta er svona sitt lítið af hverju“.
Gylfi Jón segir að forvarnir séu til heilla fyrir alla íbúana en séu einnig að spara mikið fé. Hann rifjar upp að þegar hann kom til starfa í Reykjanesbæ fyrir áratug þá hafi meginþunginn í verkefnum hans verið neyslumál hjá ungmennum, óregla og nemendur í 9. og 10. bekk sem voru orðnir fullorðnir alltof snemma og voru að gera hluti sem voru alls ekki góðir. „Þegar maður missti þessa krakka út í vistunarúrræði á stofnunum, þá var kostnaðurinn við hvern einstakling kominn í milljónir króna“. Gylfi bendir á þá staðreynd að það sé beint samhengi á milli þess að ef það tekst að seinka því að ungmenni byrji að drekka, þá minnkarðu líkurnar á því að viðkomandi verði í vandræðum með vín. Það er ofboðslega sterk fylgni þarna á milli og það munar um hvern mánuð og þetta sparar samfélaginu verulegar fjárhæðir. Þá sparar þetta samfélaginu einnig ofboðslega mikla óhamingju og gerir börn og fjölskyldur þeirra hamingjusamari.
„Hér hefur verið áhersla á snemmtæka íhlutun. Það er þó ekki þannig að við séum laus við öll vandamál, þau eru vissulega til staðar. Það er hins vegar reynt að tækla þau eins snemma og mögulegt er og með samþættum hætti þar sem fræðsluskrifstofan, félagsmálaskrifstofan, skólarnir og íþróttafélögin reyna öll að koma að eins og hægt er,“ segir Eiríkur og Gylfi Jón bætir því við að foreldrafélögin komi einnig sterk inn í starfið og þar hafi markvisst verið unnið að því að fá fleiri foreldra til þátttöku í starfinu með góðum árangri.
Ekki eðlilegt að vera í áfengisneyslu og úti allar nætur
Þeir Eiríkur og Gylfi Jón segja jaðarhópinn vera orðinn afmarkaðri og auðveldara að eiga við hann. Nú sé heldur ekki lengur eðlilegt að vera kominn í áfengisneyslu og úti allar nætur. „Það kemur líka fram í þessum rannsóknum að samverustundum ungmenna og foreldra hefur fjölgað og foreldrar vita meira um það hvar börnin þeirra eru. Það er eitt af þeim atriðum sem orðið hefur hvað dramatískust breyting á. Samvera foreldra og barna og það að vita hvar börnin eru hefur stórlega aukist frá því farið var að mæla þetta,“ segir Eiríkur.
„Bæjarblaðið hér er mjög óvenjulegt með það að þar eru greinar endalaust frá forvarnafólki. Ég held að þetta sé óvenjulegt hér á landi og þetta skapi samfélag sem sé upplýst um hverju börn þurfa á að halda og hvernig á að veita það. Hér er gott samfélag,“ segir Gylfi Jón.
Höldum vöku okkar
„Á þessum tímum er mjög mikilvægt að við höldum vöku okkar. Þetta eru viðkvæmir tímar og það er minna fé í gangi og færri möguleikar í fjáröflun fyrir góð verkefni. Það er mjög mikilvægt að við stöndum vel vaktina. Það er fullur vilji fyrir því í bæjarstjórn og þó að gangi illa að ganga frá fjárhagsáætlun þá eru þetta hlutir sem eiga ekki að verða undir,“ segir Eiríkur.
Samkvæmt könnuninni þá er að draga úr áfengis-, tóbaks- og vímuefnaneyslu á landsvísu en það dregur hraðar úr neyslunni í Reykjanesbæ en annars staðar. Stærsta breytingin er sú tíðarandabreyting að foreldrar eru mun meira vakandi núna fyrir því hvað börnin eru að gera og þeim hættum sem felast í því að hafa ekki eftirlit með sínu fólki. Þá eru foreldrar í betra sambandi við börnin sín, þó svo það sé einnig gsm-samband.
Viðhorfsbreyting
„Það hefur einnig átt sér stað viðhorfsbreyting hjá krökkunum sjálfum gagnvart vímugjöfum og það er eitthvað sem mig langar að fá nákvæmari upplýsingar um og einfaldlega spyrja krakkana sjálfa af hverju þetta stafar. Það er alveg klárt að það hefur orðið viðhorfsbreyting, því annars breytist ekki neyslumynstrið. Svo getur maður endalaust velt því fyrir sér, af hverju stafar það?,“ segir Gylfi Jón. Eiríkur bendir á að hjá Reykjanesbæ hafi verið starfandi forvarnafulltrúi undanfarin ár, sem heldur utanum öll forvarnaverkefnin.
Gylfi Jón segir að niðurstöður Rannsókna & Greiningar séu að segja bæjaryfirvöldum að þær forvarnir sem ráðist hefur verið í séu að virka fyrir sveitarfélagið. Ástæðuna fyrir góðum árangri má örugglega rekja til margra mismunandi þátta. Það sé núna verkefni að greina þennan góða árangur í Reykjanesbæ enn betur til að sjá hvað það er sem sé að skila bestum árangri.
Ingigerður Sæmundsdóttir hjá FFGÍR:
Eitt stórt klapp fyrir að segja nei takk!
Góðan árangur í forvörnum í Reykjanesbæ sem koma fram í könnun Rannsókna & Greiningar má m.a. þakka öflugu starfi FFGÍR, sem eru regnhlífarsamtök foreldrafélaga grunnskólanna í Reykjanesbæ. Ingigerður Sæmundsdóttir er verkefnastjóri hjá FFGÍR. Víkurfréttir spurðu hana hverju hún þakkaði þann árangur sem náðst hefur í Reykjanesbæ í formi minnkandi áfengisneyslu og minni reykinga nemenda í 8. til 10. bekk grunnskóla.
„Ég þakka þennan árangur mörgum aðilum og verkefnum. Við höfum unnið að mörgum góðum verkefnum síðastliðin ár til að efla foreldrasamfélagið með stuðningi fræðsluráðs, bæjarstjórnar og skólastjóra. Auðvitað eiga foreldrar hlutdeild í því að börnin þeirra hvorki reyki né drekki. Foreldrar eru meðvitaðir um ábyrgð sína og hlutverk í uppeldi og hafa skólasamfélagið sér til stuðnings og öfugt,“ segir Ingigerður.
Hún þakkar uppeldisnámskeiðum Gylfa Jóns Gylfasonar yfirsálfræðings í Reykjanesbæ. „Ég þakka fjölbreyttu æskulýðsstarfi, fagfólki í grunnskólunum þ.e. kennurum, þroskaþjálfum, námsráðgjöfum, skólahjúkrunarfræðingum, -sálfræðingum og félagsráðgjöfum. Og síðast en ekki síst þá verð ég að nefna Samtaka-hópinn sem starfar undir stjórn Heru Óskar Einarsdóttur, félagsráðgjafa og forvarnarfulltrúa“.
Aðspurð um samstarf FFGÍR og skólayfirvalda m.a. í forvarnamálum, sagði Ingigerður:
„Við hjá FFGÍR erum í góðu samstarfi við skólayfirvöld. Við eigum fulltrúa í fræðsluráði og þar látum við ýmist ánægju eða ábendingar í ljós. Við höldum ýmis námskeið til að styrkja foreldra við að taka „réttar“ ákvarðanir í uppeldinu. Bekkjarfulltrúar eru í flestum árgöngum og foreldrar hafa tækifæri til að miðla málum sín á milli og myndast hafa samstöður gegn t.d. eftirlitslausum partýum. Við erum alltaf á tánum og skoðum skólastarfið frá öllum hliðum og reynum að benda á og bregðast við þegar við verðum vör við óeðlilega þróun.
Skólaárið 2010 – 2011 lögðum við áherslu á forvarnir ýmiskonar, námsárangur barna og ábyrgð foreldra.
FFGÍR á fulltrúa í Samtaka-hópnum sem er þverfaglegur ráðgjafandi hópur. Ég held að Samtaka-hópurinn sé eitt áhrifaríkasta verkefni sem FFGÍR er þátttakandi í. Það koma mörg mál inn á borð Samtaka-hópsins sem fulltrúi lögreglu, námsráðgjafar grunnskólanna, tómstundafulltrúi, forvarnarfulltrúi Fjölbrautaskóla Suðurnesja, fulltrúi skólahjúkrunarfræðinga, fulltrúi foreldra og fulltrúi skólastjóra finna lausnir á. Hópurinn vinnur mjög faglega og hefur tekið á mörgum málum eða komið þeim í viðeigandi ferli. Við ræðum og leggjum á ráðin með allt sem viðkemur unglingum í Reykjanesbæ.
Kennarar í grunnskólunum í Reykjanesbæ, hafa samkvæmt óformlegri könnun FFGÍR töluverðan sveigjanleika í lífsleiknikennslu. Þeir nota margir hverjir tækifærið og fræða um skaðsemi reykinga og afleiðingar áfengisneyslu ásamt því að styrkja sjálfsmynd nemenda og æfa þá í að taka afstöðu og standa með sjálfum sér.
Þrátt fyrir góðar niðurstöður rannsóknarinnar þá verðum við að vera á tánum og halda áfram að styrkja og styðja við unglingana okkar. Ég vil óska unglingunum til hamingju með að standa með sjálfum sér. Ég gef unglingum í Reykjanesbæ EITT STÓRT KLAPP fyrir að segja nei takk!,“ segir Ingigerður Sæmundsdóttir í samtali við Víkurfréttir.
Betri börn í Reykjanesbæ
Færri börn í 8., 9. og 10. bekkjum í Reykjanesbæ reykja og drekka en á landsvísu. Börn í þremur efstu bekkjum grunnskóla í Reykjanesbæ reykja að jafnaði síður en börn annars staðar á landinu. Þá hafa hlutfallslega færri nemendur í þessum bekkjum í Reykjanesbæ drukkið áfengi en meðaltalið á landsvísu segir til um. Þetta sýna niðurstöður spurningakönnunar sem lögð var fyrir um 85 prósent nemenda í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi.
Mikill viðsnúningur til hins betra hefur átt sér stað í Reykjanesbæ allra síðustu árin þegar kemur að reykingum og áfengisneyslu unglinga á grunnskólaaldri. Fyrir 12 árum reyktu að jafnaði 30 prósent barna á þessum aldri en þá var landsmeðaltalið 23 prósent. Nýleg skýrsla, Hagir og líðan grunnskólanema í Reykjanesbæ 2010 sem unnin var á vegum Rannsókna & greiningar, leiðir í ljós að hlutfall þeirra sem reykja er aðeins einn tíundi af því sem það var fyrir tólf árum. Nú reykja aðeins þrjú prósent 10. bekkinga í Reykjanesbæ á meðan landshlutfallið er 7 prósent.
Verulega hefur einnig dregið úr reykingum 9. bekkinga undanfarinn áratug. Þannig var hlutfall þeirra sem reyktu 17 prósent árið 2000 en er nú á pari við landsmeðaltal, eða 4 prósent.
Svipaða þróun er að sjá á meðal nemenda í 8. bekk en þær tölur eru til frá árinu 2005. Landsmeðaltal þeirra 8. bekkinga sem reykja daglega er 2 prósent en samkvæmt könnuninni reykir enginn nemandi í áttunda bekk í Reykjanesbæ daglega.
Heildarsvarhlutfall á landsvísu var 84 til 86 prósent en um 80 prósent í Reykjanesbæ, þar sem 157 til 178 nemendur svöruðu spurningalistanum.
Niðurstöðurnar sýna einnig að færri unglingar í þremur efstu bekkjum gunnskóla drekka áfengi nú en fyrir tveimur árum. Að jafnaði hefur hlutfallið lækkað um 8 prósentustig. Nú hafa 53 prósent nemenda í 10. bekk á landsvísu drukkið áfengi, 45 prósent í 9. bekk og 31 prósent í 8. bekk.
Athygli vekur að í Reykjanesbæ er hlutfallið nokkuð lægra en á landsvísu. Þar drekka nú 46 prósent nemenda í 10. bekk, 39 prósent í 9. bekk og 28 prósent í 8. bekk. Með öðrum orðum hafa hlutfallslega færri nemendur í Reykjanesbæ drukkið áfengi en meðaltalið á landsvísu segir til um.
Þá er einnig athyglisvert að skoða svör 10. bekkinga þegar spurt er hvort þeir hafi orðið ölvaðir síðustu 30 daga. Helmingi færri nemendur í Reykjanesbæ en á landsvísu svara spurningunni játandi; 7 prósent í Reykjanesbæ en 14 prósent á landsvísu.