Á ofsahraða með 3ja ára barn í bílnum
Lögreglan á Suðurnesjum kærði í vikunni 45 ökumenn fyrir of hraðan akstur og einn til viðbótar fyrir fíkniefnaakstur. Sá sem hraðast ók mældist á 141 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Annar sem ók á 137 kílómetra hraða var með þriggja ára barn, án nokkurs öryggisbúnaðar, í aftursæti bifreiðar sinnar. Nokkrir þeirra, sem óku of hratt eru erlendir ferðamenn og kvaðst einn þeirra enn vera stilltur inn á hraðbrautaakstur.
Þá voru níu ökumenn til viðbótar kærðir fyrir að sinna ekki stöðvunar- eða biðskyldu, þrír voru ekki í öryggisbelti og einn talaði í síma án handfrjálss búnaðar. Loks voru skráningarnúmer fjarlægð af sex bifreiðum, sem ýmist voru ótryggðar eða höfðu ekki verið færðar til skoðunar innan tilskilins tímaramma.