Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Á land eftir 80 ára legu í sænum
Mánudagur 16. maí 2011 kl. 09:23

Á land eftir 80 ára legu í sænum

Þann 24. mars sl. voru liðin 80 ár síðan Björgunarsveitin Þorbjörn bjargaði 38 manna áhöfn togarans Cap Fagnets undan Hraunsfjöru. Þá var fluglínutæki fyrst notuð til björgunar hér á landi. Síðasta laugardag fóru nokkrir félagar í Þorbirni ásamt köfurum árla morguns að Hraunsfjörðu að flaki Cap Fagnets og náðu þar tveimur ankerum sem þeir komu með að landi. Ankerin komust því á þurrt land eftir 80 ára volg í sjónum en voru merkilega heilleg að sjá. Heimasíða Grindavíkurbæjar var á staðnum og skjalfesti atburðinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að sögn björgunarsveitarmanna gekk ferðin nokkuð vel þótt ekki hafi tekist að ná einnig upp aðalskrúfu Cap Fagnet eins og til stóð. Farið var á fjöru með flottank og ankerin fest í hann. Þegar flæddi að og sjávarborð tók að hækka losnuðu ankerin frá botninum og síðan var flottankurinn dreginn inn í Grindavíkurhöfn með ankerin í eftirdragi. Ankerin voru svo hífð upp á bryggju og gekk allt eins og í sögu.

Björgunarsveitarmenn halda að enn sé a.m.k. eitt ankeri í viðbót í flakinu og ásamt aðalskrúfunni. Ætla þeir að fara í nýjan leiðangur í sumar til þess að freista þess að ná aðalskrúfinni í land en talið er skrúfan sem náðist út skipinu 1998 hafi verið varaskrúfan en hún er til sýnis fyrir utan höfuðstöðvar Þorbjarnar.

Aðfaranótt 24. mars 1931 strandaði franski síðutogarinn Cap Fagnet á Hraunsfjörum austan Grindavíkur. Um borð var 38 manna áhöfn. Slæmt veður var þegar togarinn strandaði og ljóst að ekki væri unnt að yfirgefa skipið á björgunarbátum togarans.

Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík, sem stofnuð hafði verið tæpum fimm mánuðum áður, brást skjótt við og tókst að bjarga allri áhöfn togarans með hinum nýja björgunarbúnaði. Björgunin markaði ákveðin tímamót og færði mönnum heim sannindi þess hversu öflug björgunartæki fluglínutækin voru og flýtti mjög fyrir útbreiðslu þeirra. Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn fluglínutækjunum og björgunarsveitum á Íslandi líf sitt að launa.

Nánar má lesa um þessa stórmerkilegu björgun fyrir 80 árum á heimasíðu Ferlis.