Á fimmta tug aldraðra bíða eftir hjúkrunarrými

– Óásættanleg fyrir íbúa Suðurnesja.

43 sjúkir aldraðir bíða eftir hjúkrunarrými á Suðurnesjum. Ljóst er að það stefnir í óefni ef ekkert verður gert í þessum málaflokki. Það hlýtur að vera forgangsmál að vinna nú þegar að fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum. Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum vakti athygli á málinu.

Ef stuðst er við reiknireglu Velferðarráðuneytisins við mat á þörf ætti hjúkrunarrými á Suðurnesjum að vera 141 en eru aðeins 118. Reiknireglan gerir einnig ráð fyrir því að 10-15% rýma séu skilgreind sem hvíldarrými en í dag eru einungis 8 rými af 118 með þá skilgreiningu eða 6,7%.

Sé gengið út frá forsendum miðspár Hagstofu Íslands um fjölgun aldraðra til ársins 2025 má búast við að öldruðum íbúum á Suðurnesjum fjölgi um 857 á næstu 10 árum og 1708 á næstu 20 árum. Sé stuðst við reiknireglu ráðuneytisins þyrftu að vera 182 hjúkrunarrými á Suðurnesjum árið 2025 og 267 rými árið 2035.

Þessi staða er með öllu óásættanleg fyrir íbúa Suðurnesja og gerir aðalfundurinn því þá kröfu til stjórnvalda að þau standi með sveitarfélögunum á Suðurnesjum í þeirri viðleitni að byggja upp hjúkrunarþjónustu við aldraða sem uppfyllir þörf, mæti nútíma- og framtíðarþörfum í málaflokknum og standist samanburð við önnur heilbrigðisumdæmi landsins. Fundurinn skorar því á Velferðarráðherra að beita sér fyrir bragarbót í öldrunarþjónustu á Suðurnesjum þar sem ríki og sveitarfélögin verði leiðandi í nýrri nálgun í heildrænni þjónustu við aldraða, segir í ályktun SSS.