Á fimmta þúsund Suðurnesjamenn fullbólusettir - um 5 þúsund komnir með eina sprautu
Apríl næst stærsti mánuðurinn í sýnatökum vegna Covid-19
„Við höfum nú fullbólusett rúmlega 3000 manns og til viðbótar eru tæplega 4500 einstaklingar búnir að fá sína fyrstu bólusetningu. Við munum bólusetja rúmlega 700 manns með seinni bólusetningu í dag, fimmtudag. Á föstudag munum við svo bólusetja með 480 skömmtum af Janssen og bætast þeir þá við fullbólusetta. Í næstu viku verður hópurinn sem bólusettur var með Astra Zeneca í febrúar bólusettur með seinni skammti,“ segir Andrea Klara Hauksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslu HSS.
Bólusetningar hafa að sögn Andreau gengið mjög vel hérna suðurfrá og nú ættu flest allir sem eru í áhættuhópum að vera búnir að fá boð í bólusetningu.
„Við byrjum einnig að bólusetja leikskólakennara og kennara í þessari viku og munum halda áfram með þann hóp í næstu viku.
Að undanförnu höfum við fengið mikið af símtölum og tölvupóstum með fyrirspurnum um bóluefni og forgangshópa. Ég vil benda fólki að það þarf ekki að hafa samband á heilsugæsluna, það getur fengið allar upplýsingar um bóluefni, forgangshópa og svör við öðrum spurningum varðandi bólusetningar bæði á vefsíðu landlæknis landlaeknir.is og covid.is.
Á föstudaginn 7. maí verðum við með opið hús í bólusetningar á Ásbrú milli kl. 12:00 og 13:00 fyrir einstaklinga fædda 1961 og fyrr, 60 ára og eldri sem ekki hafa fengið bólusetningu. Við verðum með bóluefni Astra Zeneca og dugar að mæta á staðinn með skilríki, það þarf ekki að panta tíma. Þeir sem ekki komust þegar þeir fengu boð í bólusetningu geta mætt þá.
Þess má geta að samhliða bólusetningum á Ásbrú er heilsugæslan einnig að sjá um covid sýnatökur á Fitjabrautinni og var apríl mánuður næst stærsti mánuðurinn í sýnatökum hér á Suðurnesjum frá því Covid byrjaði, þannig að það er í mörg horn að líta,“ segir Andrea Klara.
Suðurnesjamagasín fylgdust með bólusetningum í húsnæði Landhelgisgæslunnar á Ásbrú í síðustu viku og ræddi við Sveinbjörgu S. Ólafsdóttur frá HSS og heyrði í nokkrum bæjarbúum sem voru að fá bólusetningu.