Á fallandi fæti
Þrír menn slösuðust við vinnu sína í Reykjanesbæ í síðustu viku. Þeir eru nú allir á batavegi.Maður á fertugsaldri féll úr stiga skömmu eftir hádegi sl. laugardag, þegar hann var að reyna að komast upp á geymsluloft í bílskúrnum heima hjá sér. Stiginn féll undan honum með þeim afleiðingum að hann meiddist á öxl. Maðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með sjúkrabifreið, en fékk að fara heim að skoðun lokinni.Um hálfri klukkustund síðar varð tæplega áttræður maður fyrir því óláni, að falla niður af vinnupalli sem stóð við nýbyggingu í Keflavík. Maðurinn var að hjálpa syni sínum við húsbyggingu þegar honum skrikaði fótur og féll tvo metra til jarðar. Hann skaddaðist á höfði og var fluttur á Landsspítalann í Fossvogi til skoðunar.Ungur maður fékk planka í höfuðið sl. mánudag, þegar hann var við vinnu sína við Njarðvíkurskóla. Pilturinn stóð neðan við vinnupall þegar svo illa vildi til að planki kom á fljúgandi ferð niður af pallinum og lenti á höfði hans. Pilturinn fékk skurð á höfuðið og vægan heilahristing. Gert var að sárum hans á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og fékk hann að fara heim að því loknu.