Á annað hundrað komast ekki í FS vegna samdráttar
„Á annað hundrað ungmenni sem sóttust eftir að komast í nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á haustönn sem slitið var sl. laugardag komust ekki að. Þessi niðurskurður og samdráttur bitnar fyrst og fremst á þeim sem hófu nám en luku því ekki og tóku sér frí í einhvern tíma og vildu síðan snúa aftur í skóla þegar þau voru tilbúin til að takast á við námið,“ sagði Kristján Ásmundsson, skólameistari í ræðu sinni við útskrift FS.
Í ræðu sinni sagði Kristján m.a.:
„Nú er að ljúka einni fjölmennustu önn skólans frá upphafi en um 1100 nemendur stunduðu hér nám í dagskóla og síðan bættust við rúmlega 60 nemendur úr 10. bekkjum grunnskólanna. Þess má geta að við gerðum sérstakan samning við menntamálaráðuneytið til að fá að halda áfram kennslu valáfanga fyrir grunnskólanemendur eins og við höfum gert undanfarin 10 ár. Að mínu mati er það öllu skólastarfi til framdráttar að gefa duglegum nemendum þannig tækifæri til að takast á við meira krefjandi nám meðan þeir eru enn í grunnskóla. Það eykur metnað þeirra á að standa sig vel. Stór hluti þeirra nemenda sem er að útskrifast hér í dag á þremur og hálfu ári var búinn að taka áfanga áður en þeir hófu hér formlegt nám. Með þessu viljum við stuðla að fljótandi skilum milli grunnskóla og framhaldsskóla en slíkt er að mínu mati mikilvægt fyrir skólastarfið á svæðinu.
Hvernig skóli er FS og hvað eru allir þessir nemendur að læra hérna?
Ég hef orðið var við að það eru ekki allir sem þekkja eða hafa ekki leitt hugann að því starfi sem hér fer fram. FS er eini framhaldsskólinn á svæðinu og það hefur verið okkur metnaðarmál að taka við þeim nemendum sem til okkar hafa leitað. Aðsóknin hefur aukist mikið undanfarin ár í takt við fjölgun íbúa á svæðinu auk þess sem hærra hlutfall nýnema hefur sótt í framhaldsskóla. Heimild okkar til að taka inn fleiri nemendur hefur hins vegar ekki aukist og því urðum við að neita á annað hundrað nemendum um skólavist í haust og það er ekki gott. Það er samdráttur og við fáum þau skilaboð að það þurfi að spara og skera niður á öllum sviðum. Við höfum gert hvað við getum til að reka skólann án þess að skerða námsframboð í dagskóla eða fækka þar nemendum og þeir hafa í raun aldrei verið fleiri. Samdrátturinn hefur, eins og ríkið bauð, hins vegar orðið í kvöldskóla og kennslu valáfanga fyrir 10. bekkinga. Þessi niðurskurður og samdráttur bitnar fyrst og fremst á þeim sem hófu nám en luku því ekki og tóku sér frí í einhvern tíma og vildu síðan snúa aftur í skóla þegar þau voru tilbúin til að takast á við námið. Þá eru þau því miður ekki í forgangi lengur og komin aftast á innritunar listann og tækifærin því harla fá. Við höfum ítrekað bent á þennan vanda og viljað leita leiða til að bæta hér úr en ekki fengið neina úrlausn. Kvöldskólinn væri kjörin leið fyrir þessa einstaklinga en hún er ekki auðveld heldur. Ríkisvaldið hefur nú heitið sértækum aðgerðum til lausnar á vanda svæðisins meðal annars í menntamálum og verðum við nú að bíða og sjá hverjar efndir verða. Við skulum hafa í huga að hlutfallslega eru framlög á hvern nemanda á framhaldsskólaaldri lægri hér en annarsstaðar á landinu og slíkt er ekki ásættanlegt. Á þessu verður að fást leiðrétting því málið þolir ekki bið.
Á samdráttartímum er meiri þörf fyrir menntun. Atvinnuleysi er mikið hér á svæðinu og flest þeirra ungmenna á aldrinum 18 – 25 ára sem eru atvinnulaus, 75-80%, hafa ekki lokið neinu formlegu prófi úr framhaldsskóla, þetta hlutfall er hærra hér en annarsstaðar. Við verðum vör við þetta því margir þeirra hafa leitað eftir skólavist og vilja styrkja sig námslega til að auka möguleika sína á vinnumarkaði. Okkur skortir hinsvegar heimild til að veita þeim skólavist. Menntun er sú fjárfesting sem best borgar sig þegar til lengri tíma er litið.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja er blandaður framhaldsskóli þar sem boðið er uppá starfsnám, iðnnám og hefðbundið bóknám og við leitumst við að mæta þörfum hvers og eins. Nemendahópurinn er ekki einsleitur eins og sumstaðar. Breiddin er mikil og það er gott því við viljum að hann endurspegli samfélagið sjálft. Nemendur átta sig á að það eru ekki allir eins, og þeir venjast því að taka tillit til annarra og þetta gengur vel.
Ríflega helmingur nemenda er í stúdentsnámi og er þá að búa sig undir frekara nám í háskólum eða sérskólum. Tæpur þriðjungur er svo á starfs- og verknámsbrautum og er í sértæku námi að búa sig undir störf á hinum almenna vinnumarkaði. Hluti þeirra bætir síðan við sig í námi og lýkur einnig stúdentsprófi. Um 20% er síðan á starfsbrautum eða í almennu námi og hafa ekki enn gert upp hug sinn hvert skal stefna.
Vegna stærðar skólans þá getum við boðið mjög fjölbreytt nám og við erum alltaf að leita leiða til að bæta það. Við stefnum að því að fjölga stuttum námsbrautum á næsta skólaári. Með því viljum við opna nýjar leiðir og efla um leið tengslin við atvinnulífið á svæðinu. Tilgangurinn er einnig sá að nemendur geti valið sér nám með ákveðin markmið í huga hvað varða bæði störf og frekari menntun á viðkomandi sviði. Eina slíka braut, ferðaþjónustubraut, erum við að prófa á þessari önn eins og kom fram hér áðan. Þessar stuttu brautir leysa ekki allan vanda þeirra sem eru óráðnir og hverfa frá námi en þær gætu hentað þeim nemendum sem ekki ætla sér lengra, ýmist vegna þess að þeir treysta sér ekki til þess eða vilja drífa sig út á vinnumarkaðinn og hefðu þá meiri möguleika á vinnu. Við hvetjum alla nemendur okkar til að nýta vel það tækifæri sem skólavist veitir þeim. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að þeir fái annað tækifæri eftir að hafa hætt eða gert hlé á skólagöngu sinni í einhvern tíma.
Þeirra sem hafa enga formlega menntun bíða oft einhæf störf sem ekki gera miklar kröfur um viðurkennt nám. Þau eru jafnan illa launuð og stuðla ekki að hvatningu til menntunar. Með því að auka fjölbreytni, meðal annars í starfstengdu námi vonumst við til að geta breytt þessu. Það verður ekki nein atvinnuuppbygging hér á svæðinu ef ekki er hægt að fá hér menntað vinnuafl. Ég held að áhugi og skilningur nemenda sé að vakna á þessu og þeir sækja meira í nám sem þeir vita að tryggir þeim góð störf í framtíðinni. Kvöldskólinn hefur verið góður kostur fyrir þá sem vilja snúa aftur til náms eftir nokkurt hlé eða ljúka iðnnámi, oft samhliða vinnu t.d. með því að fara fyrst í raunfærnimat. Því miður hefur verið þrengt að þessum möguleika með auknum niðurskurði.“