Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Á að kenna jafnréttis- og kynjafræði sem sérstaka námsgrein í grunnskólum?
Laugardagur 24. febrúar 2018 kl. 07:00

Á að kenna jafnréttis- og kynjafræði sem sérstaka námsgrein í grunnskólum?

Þóranna Kristín Jónsdóttir, foreldri í Reykjanesbæ telur brýnt að auka jafnréttiskennslu í skólakerfinu og segir mikilvægt að aðalnámskrá innihaldi jafnréttis- og kynjafræði sem sérstaka námsgrein í grunnskólum.

Jafnréttis- eða kynjafræði er ekki kennd sem sérstök námsgrein í flestum grunnskólum landsins. Samt kemur orðið jafnrétti 60 sinnum fram í aðalnámskrá grunnskóla og er jafnrétti einn af grunnstoðum menntunar á Íslandi. Jafnrétti felur auðvitað í sér fleiri hluti en kynjajafnrétti en í  námskránni kemur fram að kynjafræði og hugtök hennar séu mikilvægur þáttur í að gera nemendur meðvitaða um stöðu kynjanna í samfélaginu. Jafnrétti fléttast í gegnum allt starf grunnskólanna og er kynjafræði kennd sem hluti af samfélagsgreinum á unglingastigi. Oft fá skólar utanaðkomandi sérfræðinga til þess að halda kynningar um samfélagsleg mál eins og kynjafræði og málefni hinsegin fólks. Skiptar skoðanir eru á því hvort fræða eigi börn um jafnrétti kynjanna í gegnum aðrar námsgreinar, t.d. með því að fjalla um ákveðin málefni út frá kynjafræðilegri nálgun eða kenna kynjafræði sem sérstaka námsgrein.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þóranna Kristín Jónsdóttir, markaðsfræðingur og móðir tveggja barna í Reykjanesbæ stofnaði nýlega Facebook hópinn Byrjum fyrr… jafnréttisfræðsla í skólum með því markmiði að þrýsta á að jafnréttis- og kynjafræði verði kennd í gegnum alla skólagönguna. Nú þegar eru 1100 meðlimir í hópnum en flestir eru foreldrar grunnskólabarna sem hafa áhuga á því að börn þeirra læri um jafnrétti kynjanna í skólanum. Þóranna veit að jafnréttis- og kynjafræði sem sérstök námsgrein er ekki í boði í grunskólum barna hennar en með Facebook hópnum vildi hún komast að því hvar málið væri statt í kerfinu. Hún veltir því fyrir sér hvers vegna kynjafræði sé ekki kennd fyrst það eru skýr ákvæði í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál.

Endalaus átaksverkefni fyrir fullorðna til að jafna stöðu kynjanna

„Ég hef alltaf verið gallharður femínisti og fundist jafnréttismál skipta miklu máli. Auk þess á ég bæði son og dóttur. Í kringum 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna var gefin út tölfræði sem sagði að dóttir mín 13 ára yrði komin á eftirlaun þegar launajafnrétti næðist. Svo núna í kringum MeToo byltinguna fór ég að hugsa að það er alltaf verið að setja á fót átaksverkefni fyrir fullorðna eins og t.d. lög um jafnt kynjafhlutfall í stjórnum og jafnlaunastaðalinn. Auðvitað þurfum við að halda þeim verkefnum áfram en ef við kennum börnum þetta strax að þá vonandi þurfum við ekki þessi prógrömm þegar þau verða fullorðin.“
Rannsóknir sýna að fyrir mjög ungan aldur gera börn ekki greinarmun á samfélagslega mótuðum kynjamun. Þóranna segir að fræðsla sé mikilvæg strax í leikskóla og að hún sé svo markvisst kennd í gegnum grunnskólann sem sérstök námsgrein. „Það þarf að vera staðlað námsefni og það á ekki að vera tilviljanakennt og í skólum sjálfsvald sett hvort kynjafræði sé kennd. Það er ekki nóg að flétta jafnréttisfræðslu inní alla aðra kennslu. Ef það eru ekki markvissar aðgerðir og námskrá alveg eins og það er stöðluð kennsla í öðrum fögum, að þá gerist ekkert. Það er ekki nóg að hafa þetta sem part af lífsleikni eða samfélagsfræði.“

Mikilvægt að kynjafræði sé kennd í kennaraháskólanum

Ef jafnréttiskennsla á að skila árangri þurfa þeir sem kenna hana að vera nógu fróðir til þess að geta miðlað efninu áfram. Fræðimenn segja að grundvallaratriði sé að kennarar fái jafnréttis- og kynjafræðikennslu í háskólanámi og Þóranna komst að því í gegnum Facebook hópinn að það hafi verið nýlega verið samþykkt að kynjafræði verði kennd sem áfangi í Kennaraháskóla Íslands. „Það er komið fyrsta skrefið og ég bíð spennt eftir að sjá það verða að veruleika. Næst á dagskrá er að hitta aðra foreldra og sérfræðinga í Facebook hópnum til þess að sjá hvernig við getum þrýst á viðeigandi aðila um að kynjafræði verði kennd skipulega eins og hver önnur námsgrein í grunnskólum. Árið er 2018 og við erum með skýra námskrá um hversu marga tíma börnin okkar þurfa að taka í dönsku og hvaða prófum þau þurfa að ná en þau eru ekki með sér tíma í öðrum jafn samfélagslega mikilvægum fögum eins og jafnréttiskennslu og t.d. fjármálalæsi. Skólakerfið þarf að bregðast við breyttum þörfum nútímans og aðlaga námskrána sína eftir því,“ segir Þóranna og hvetur alla áhugasama um að ganga hópinn á Facebook sem heitir Byrjum fyrr… jafnréttisfræðsla í skólum.

Jafnrétti fléttað í gegnum allt skólastarf

Víkurfréttir náðu tali af Bryndísi Björg Guðmundsdóttur, skólastjóra Myllubakkaskóla, Bryndísi Jónu Magnúsdóttur aðstoðarskólastjóra Heiðarskóla og Sigrúnu Birtu Sigurðardóttur kennara samfélagsgreina á unglingastigi í Holtaskóla til að fræðast um fyrirkomulag jafnréttis- og kynjafræðikennslu í grunnskólum Reykjanesbæjar. Allar segja þær skólana vera með jafnréttisáætlun og að jafnrétti sem ein af grunnstoðum menntunar, sé fléttað í gegnum allt grunnskólastarf frá byrjun til enda. Jafnrétti- og kynjafræðikennsla er partur af samfélagsgreinum á unglingastigi og þar eru helstu hugtök tekin fyrir og nemendur skoða hin ýmsu málefni út frá kynjavinkli. Í aðalnámskrá grunnskóla eru hæfniviðmið sem kennarar kenna eftir og í þessu samhengi er eitt hæfniviðmið sem snýr að skilningi um kyn og kyngvervi og þá finna kennarar leiðir til þess að kenna nemendum viðeigandi efni. „Við höfum notast við bók sem heitir Kynungabók sem byggir á femínískum hugmyndum og mótunarhyggju en að mestu hef ég sjálf verið að safna efni til að kenna í mismunandi áföngum. Ég kenndi sérstaka lotu í kynjafræði í félagsfræðitíma í 10. bekk og svo tók ég lotu um MeToo byltinguna hjá 9.-10. bekk. Þá vinna krakkarnir saman umræðuverkefni og eru þá að fjalla um málefni sem eru til umræðu í samfélaginu hverju sinni,“ segir Sigrún Birta kennari samfélagsgreina í Holtaskóla.

Bryndís Jóna og Bryndís Björg segja sama fyrirkomulag og Sigrún Birta lýsir gilda í Heiðarskóla og Myllubakkaskóla, þar sem samfélagsfræðikennarinn fær frelsi og traust skólastjórnenda til þess að móta sína kennslu innan ramma aðalnámskrár með hæfniviðmiðin að leiðaljósi. „Heiðarskóli er uppbyggingastefnuskóli og grunnurinn í stefnunni er að nemendur átti sig á því hver þau eru og hvernig manneskjur þau vilja vera, hvernig  þau uppfylla þarfir sínar á jákvæðan og neikvæðan hátt og læra að bregðast við því. Við höldum bekkjarfundi og vinnum með sameiginleg gildi. Í slíkri vinnu spinnast  gjarnan umræður út frá gildum eða klípusögum og þá koma jafnréttis- og kynjamál oft inn í. Það á reyndar við um umræðu í alls kyns verkefnum í ýmsum námsgreinum,“ segir Bryndís Jóna.

Utanaðkomandi fræðsla til að auka víðsýni

Allir skólarnir hafa fengið einhverja utanaðkomandi fræðslu sem er liður í því að auka víðsýni hjá nemendum og bjóða upp á fjölbreytta fræðslu. „Við höfum verið að fá utanaðkomandi aðila til þess að halda fyrirlestra um hin ýmsu samfélagslegu málefni. Samtökin 78 hafa haldið hinsegin fræðslu og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari í Borgarholtsskóla hefur haldið fræðslu um femínisma og kynjafræði,“ segir Bryndís Björg.

Jafnréttis - eða kynjafræði hefur hingað til ekki verið kennd sem sérstök námsgrein í skólum en reynt hefur verið að bjóða upp á kynjafræði sem valfag á unglingastigi bæði í Holtaskóla og Heiðarskóla en að sögn Bryndísar Jónu og Sigrúnar Birtu skráðu sig örfáir nemendur á námskeiðin og féllu þau því niður. „Mér finnst ekki þörf á því að hafa kynjafræði sem sérstaka námsgrein ef það er tekið markvisst fyrir innan samfélagsfræðinnar. Flestir skólar eru að taka þetta markvisst fyrir. Ég reyni að nálgast nemendur út frá þeirra reynsluheimi og finn að krakkarnir eru stundum með neikvæða tengingu við sum orðin innan kynjafræðinnar.

Krakkarnir litast oft af skoðunum foreldra sinna, kunningja og vina. Maður mætir t.d. meiri mótspyrnu hjá nemendum ef maður talar um femínisma fyrst eða ef þau vita að þau séu í kynjafræði. En ef maður ræðir t.d. um jafnréttismál út frá einhverju sem við heyrum í fréttunum að þá kemur kannski upp umræða í kjölfarið um femínisma. Við viljum ná til fleiri en færri og reynum að velja nálgunina eftir því. Alveg eins og við erum með femínista í þjóðfélaginu að þá erum við líka með fólk sem er bara alls ekki þar,“ segir Sigrún Birta.

Hugsar út fyrir kassann og tekur kynjavinkil í sögukennslu

Sigrún Birta segir enn fremur að nálgunin hennar sé þannig að hún hugsi út fyrir kassann til þess að tengja jafnréttismálin inn í námsefnið í samfélagsgreinunum. „Við tökum oft umræðu um alls konar mál með kynjavinkli. Til dæmis vorum við að fjalla um Fyrri heimsstyrjöldina um daginn og ræddum þá að konur hefðu farið í fyrsta sinn út á vinnumarkaðinn í stórum stíl, því karlarnir voru í stríði. Þegar stríðinu lauk vildu þær halda áfram að vinna en Hitler rak konurnar aftur inn á heimilin til að minnka atvinnuleysi í Þýskalandi. En þetta er mín eigin nálgun, þetta stendur ekki endilega í námsbókinni og það mætti alveg vera til betra efni til að kenna,“ segir Sigrún Birta.