Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

91 nemandi útskrifaðist frá FS í dag
Laugardagur 19. maí 2012 kl. 19:04

91 nemandi útskrifaðist frá FS í dag



Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram í dag, laugardaginn 19. maí. Að þessu sinni útskrifaðist 91 nemandi; 49 stúdentar, 9 sjúkraliðar, 7 brautskráðust af starfsbraut, 15 úr verknámi, 9 luku starfsnámi, tveir luku listnámi og einn meistaranámi. Auk þess lauk einn skiptinemi námi sínu í skólanum. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 48 og karlar 43. Alls komu 68 úr Reykjanesbæ, 9 úr Grindavík, 5 úr Sandgerði, 4 úr Garði og þrír úr Vogum. Einn kom frá Kópavogi og einn úr Hafnarfirði.

Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Kristján Ásmundsson aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Magdalena Margrét Jóhannsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Þórunn Svava Róbertsdóttir kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Nýstúdentarnir Jón Böðvarsson, Lilja Björg Jökulsdóttir og Sölvi Logason fluttu tónlist við athöfnina ásamt fleiri nemendum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Andri Steinn Harðarson, Ásta Mjöll Þorsteinsdóttir, Kristján Helgi Olsen Ævarsson, Magdalena Margrét Jóhannsdóttir, Sölvi Logason og Sunna Kristín Gunnlaugsdóttir fengu öll viðurkenningu fyrir störf sín í þágu nemenda skólans. Helena Sirrý Pétursdóttir fékk viðurkenningu fyrir frábæran árangur í fata- og textílgreinum og Ólafur Björn Borgarsson fékk gjöf frá Vélstjórafélagi Suðurnesja fyrir góðan árangur í vélstjórnargreinum. Sigríður Eva Sanders fékk viðurkenningu fyrir árangur í viðskiptafræði, Una María Unnarsdóttir fyrir efnafræði, Íris Björk Rúnarsdóttir fyrir spænsku og Selma Sól Margeirsdóttir fyrir framúrskarandi árangur í hjúkrunargreinum. Gauti Þormar fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda skólans og einnig fyrir góðan árangur í bókfærslu. Ólafur Helgi Jónsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði og frábæran árangur í tölvugreinum. Andrea Björg Jónsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku, fyrir spænsku og hún fékk gjöf frá Danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku. Andrea Björg fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði og hún fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðafélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði og frá Háskólanum í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Andrea Björg fékk svo 100.000 kr. styrk úr Skólasjóði Fjölbrautaskólans fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi. Þá fékk skiptineminn Maia Casna gjöf til minningar um veru sína í skólanum og á Íslandi.


Sara Harðardóttir enskukennari fékk gullmerki við athöfnina


Landsbankinn veitti við útskriftina viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og var það Einar Hannesson útibússtjóri sem afhenti þær fyrir hönd bankans. Að þessu sinni hlaut Andrea Björg Jónsdóttir viðurkenningar fyrir góðan árangur í tungumálum og fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum. Andrea Björg hlaut einnig viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og fékk að launum 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum.

Guðbjörg Ingimundardóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita nemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þau Bryndís Sunna Guðmundsdóttir, Hulda Sif Steingrímsdóttir, Jóhann Gíslason og Pétur Freyr Krsitmundsson fengu öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku og góðan árangur í lífsleikni. Þá fékk nemendafélag skólans 100.000 kr. sem viðurkenningu fyrir öflugt og fjölbreytt félagslíf.

Við lok athafnarinnar veitti skólameistari Söru Harðardóttir gullmerki FS en hún hefur starfað við skólann í 25 ár. Þá var Ólafi Jóni Arnbjörnssyni veitt gullmerki skólans en hann lætur nú af störfum eftir að hafa gegnt stöðu skólameistara í 17 ár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024