82 nemendur útskrifuðust á vorönn frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 19. maí. Að þessu sinni útskrifuðust 82 nemendur; 53 stúdentar, 11 sjúkraliðar, 8 úr verknámi, 3 brautskráðust af starfsbraut, 3 úr starfsnámi og tveir meistarar. Auk þess luku tveir skiptinemar námi sínu í skólanum. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 43 en karlar 39. Alls komu 54 úr Reykjanesbæ, 15 úr Grindavík, 3 komu úr Sandgerði, Garði og Vogum og einn úr Hafnarfirði, Hólmavík, Höfn í Hornafirði og Suðureyri.
Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Kristján Ásmundsson aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Gylfi Már Sigurðsson nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Gunnlaugur Sigurðsson stærðfræðikennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju léku útskriftarnemendur tónlist við athöfnina en þær Camilla Petra Sigurðardóttir, Edda Rós Skúladóttir og Valgerður Björk Pálsdóttir nýstúdentar léku á fiðlur.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Þau Bryndís Hjálmarsdóttir, Gylfi Már Sigurðsson, Jón Júlíus Karlsson, Sigurður Friðrik Guðmundsson og Valgerður Björk Pálsdóttir fengu öll viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda og Guðrún Sigurjónsdóttir fyrir störf sín í öldungaráði skólans. Nemendur starfsbrautar fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur; Arngrímur Guðjón Arnarsson og Gestur Þorsteinsson fyrir frábæran árangur í námi, Gestur fékk einnig verðlaun fyrir frammistöðu í myndlist og Jósef Williams Daníelsson fyrir stærðfræði á starfsbraut. Óli Þór Hjaltason fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í vélfræðigreinum, Erla Rut Jónsdóttir fyrir sögu og Hrefna Björk Sigvaldadóttir fyrir lokaverkefni sitt í textíl. Skúli Pálmason hlaut viðurkenningar fyrir árangur sinn í ensku og sögu og Eva Þóra Karlsdóttir fyrir frönsku og spænsku. Valgerður Björk Pálsdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku, þýsku og sögu og hún fékk einnig viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda skólans. Edda Rós Skúladóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur fyrir spænsku, fyrir lokaverkefni í textíl og þá fékk hún verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði. Þá fengu skiptinemarnir Helene Ruelle og Isarakorn Prapatsorn gjöf til minningar um veru sína í skólanum og á Íslandi.
Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Geirmundur Kristinsson þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Að þessu sinni hlaut Kristinn Björnsson viðurkenningu fyrir góðan árangur í iðngreinum og Eva Þóra Karlsdóttir fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn í íslensku og erlendum tungumálum. Edda Rós Skúladóttir hlaut viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og hún hlaut einnig viðurkenningu fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum.
Við útskriftina var greint frá stofnun styrktarsjóðs fyrir nemendur skólans. Það eru Samkaup og Gunnar Sveinsson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri og fyrsti formaður skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem standa að stofnun sjóðsins og leggja hvorir til 5 milljónir króna í stofnfé. Gunnar greindi frá stofnun sjóðsins og afhenti skólameistara stofnféð. Þá lögðu Sparisjóðurinn í Keflavík og Halldór Friðrik Þorsteinsson hjá HF Verðbréfum eina milljón króna hvor í Minningarsjóð Gísla Torfasonar. Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri afhenti féð fyrir hönd gefenda og sagði við það tækifæri að hann óskaði þess að féð nýttist nemendum skólans í anda Gísla. Ástæða er til að þakka þessi höfðinglegu framlög til nemenda skólans og þann hug sem þau sýna.
Við lok athafnarinnar kvaddi skólameistari Laufeyju Kristjánsdóttur skólaritara sem lætur af störfum við skólann og Hjálmar Árnason sem lætur nú formlega af embætti skólameistara. Af því tilefni sæmdi skólameistari Hjálmar gullmerki FS.
Að lokum sleit Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari vorönn 2007.
Texti: Af vef Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Mynd: Oddgeir Karlsson