8000 rjómabollur hjá Sigurjóni
Bolluvertíðin hjá Sigurjóni Héðinssyni bakara í Sigurjónsbakaríi hófst í síðustu viku, en mikið var að gera um helgina í bollusölu. „Það hefur verið mest að gera á föstudag, sunnudag og hámarkið verður í dag,“ sagði Sigurjón í samtali við Víkurfréttir en nóg hefur verið að gera síðustu daga.
Sólarhringurinn hefur verið lagður undir að sögn Sigurjóns og unnið hefur verið á vöktum síðustu daga. Rúmlega 8000 bollur eru framleiddar hjá Sigurjóni fyrir þessa vertíð og segir hann söluna hafa farið niður á við undanfarin ár. „Það eru ekki svo ýkja mörg ár síðan þegar framleiddar voru um 50 þúsund bollur í einu bakaríanna hér í Keflavík,“ segir Sigurjón en um 230 lítrar af rjóma fara í bollurnar þetta árið.
Vinsælustu rjómabollurnar að sögn Sigurjóns eru vatnsdeigsbollur með súkkulaði og rjóma en gerbollurnar eru á undanhaldi. „Maður er bjartsýnn á vertíðina enda hefur þetta allt saman gengið svo vel,“ segir Sigurjón.
Myndir: Sigurjón fékk sér að sjálfsögðu bita af rjómabollu þegar Víkurfréttir heimsóttu hann í hádeginu. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.