80% þeirra sem misstu húsnæði sitt leigja núna
Erfitt fyrir marga að skilja stöðu sína. Sláandi niðurstöður könnunar velferðarráðuneytisins.
Átta af hverjum tíu fjölskyldum á Suðurnesjum sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á árunum 2008-2011 búa nú í leiguhúsnæði. Áberandi er að hátt hlutfall skuldara nýtti sér ekki opinber úrræði sem í boði voru og hefðu getað komið þeim að gagni vegna skorts á upplýsingum um þau. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar velferðarráðuneytisins sem birtar voru á þriðjudag. Í úrtaki voru 335 einstaklingar og fjölskyldur en 150 svöruðu.
Hátt hlutfall svarenda (63%) sem misst hafði húsnæði á nauðungarsölu hafði ekki nýtt sér nein úrræði vegna fjárhags- eða húsnæðisvanda.
„Það erfitt að segja til um af hverju svona margir hafa ekki vitað um þau úrræði sem þeim stóðu til boða, ekki skilið þau eða fengið misvísandi upplýsingar um hvað þeim stóð til boða. Ein af skýringunum getur verið það mikla álag sem er á þeim einstaklingum og fjölskyldum sem fóru í gegnum fjárhagsþrengingar og húsnæðismissi eftir hrun, greiðsluaðlögun og gjaldþrot. Einnig hafa mörg álitamál verið uppi um meðferð fjármálafyrirtækja á skuldum og ábyrgðum vegna lánveitinga sem þau veittu fyrir hrun og erfitt fyrir almenning að fylgjast með og jafnvel skilja hver staða þeirra er gagnvart fjármálafyrirtækjum,“ segir Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjanesbæjar.
Hera segir að í félagsþjónustunni finni þau vel fyrir því hvernig hækkandi húsaleiga og kröfur um meiri fyrirframgreiðslur og tryggingar á leigumarkaði geri leigjendum erfitt fyrir og þar spili sterkt inn veik staða einstaklinga gagnvart viðskiptabanka sínum eftir forsendubrest í hruninu. Þetta komi ekki síst fram í auknum fjölda umsókna um félagslegt húsnæði. „Eðlilega hafa foreldrar áhyggjur af áhrifum fjárhagslegra breytingar heimilisins á börnin sín og það óöryggi og óvissu sem því fylgir. Það er mikilvægt að foreldrar kynni sér á heimasíðum síns sveitarfélags hvaða þjónusta er í boði, s.s. hvatagreiðsla vegna íþrótta- og tómstundaþátttöku barna.“
Hera bætir við að oft sé nauðsynlegt að fá löglærða aðila til að fara í gegnum fjármálin fyrir hönd almennings en því fylgi líka kostnaður sem fólk sjái ekki fram á að geta greitt og veigri sér því við að nýta sér þá þjónustu. Hafi greiðsluaðlögun ekki endað með gjaldþroti geti kröfuhafar endurvakið kröfur sínar á fimm ára fresti og það hvílir því á mörgum. Skrifstofa Umboðsmanns skuldara hafi sérþekkingu á þessum málum og aðstoði skuldara við að finna þá leið sem best hentar hverjum og einum miðað við þeirra forsendur og því mikilvægt að fólk leiti til þeirra eftir ráðgjöf og aðstoð.