80 nemendur útskrifuðust frá FS
Skólaslit vorannar fóru fram í gær
Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram í gær, laugardaginn 24. maí. Að þessu sinni útskrifuðust 80 nemendur; 53 stúdentar, 5 sjúkraliðar, 9 brautskráðust af starfsbraut, 7 úr verknámi og 19 luku námi af starfsnámsbrautum. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 42 og karlar 38. Alls komu 57 úr Reykjanesbæ, 13 úr Grindavík, 3 úr Garði, tveir úr Vogum og einn úr Sandgerði. Einn kom frá Húsavík, einn frá Hellu og einn úr Kópavogi. Sá nemandi sem kom lengst að lauk námi í netagerð og kom alla leið frá Litháen.
Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Magnea Guðríður Frandsen nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Einar Trausti Óskarsson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Nýstúdentarnir Helena Rós Gilbert og Patrekur Hrafn Hallgrímsson fluttu tónlist við athöfnina ásamt nemendum og kennurum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Gullveig Petra Snorradóttir og Ívar Egilsson fengu verðlaun fyrir góðan árangur í íslensku. Ellert Björn Ómarsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í húsasmíði og Hulda Sif Steingrímsdóttir fyrir góðan árangur í fata- og textílgreinum. Sylwia Wszeborowska fékk viðurkenningu Ísbrúar, félags kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál, fyrir frábæra frammistöðu í námi í íslenskum framhaldsskóla en þessi viðurkenning er veitt nemendum sem hafa lært íslensku sem annað tungumál. Andrea Laufey Hauksdóttir fékk verðlaun fyrir árangur sinn í ensku og spænsku, Aníta Ósk Georgsdóttir fyrir sálfræði og ensku og Konný Hrund Gunnarsdóttir fékk verðlaun fyrir góðan árangur í myndlist en hún fékk einnig gjöf frá Listasafni Reykjanesbæjar fyrir árangur sinn. Helena Rós Gilbert fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku og jarðfræði og Magnea Guðríður Frandsen fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn í ensku, frönsku, spænsku og jarðfræði. Sandra Lind Þrastardóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í spænsku, stærðfræði, viðskiptagreinum og bókfærslu. Sandra Lind fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðafélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur til þess nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Sandra Lind Þrastardóttir styrkinn.
Landsbankinn veitti við útskriftina viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og var það Björn Kristinsson sem afhenti viðurkenningarnar fyrir hönd bankans. Að þessu sinni hlaut Magnea Guðríður Frandsen verðlaun fyrir góðan árangur í erlendur tungumálum á stúdentsprófi og Ellert Björn Ómarsson fyrir góðan árangur í tæknigreinum. Sandra Lind Þrastardóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum. Sandra Lind hlaut einnig viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og fékk að launum 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum.
Við útskriftina veitti nemendafélagið NFS verðlaun fyrir jákvæða framkomu á skemmtunum félagsins í vetur. Það var Elva Dögg Sigurðardóttir, formaður félagsins, sem afhenti verðlaunin, iPada sem foreldrafélag skólans og Reykjanesbær gáfu.
Guðbjörg Ingimundardóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita nemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þau Guðlaugur Ómar Guðmundsson, Kristín Ragnheiður Eiríksdóttir, Sigurður Baldvin Ólafsson og Jónas Daníel Þórisson fengu öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku og góðan árangur í lífsleikni.
Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari vorönn 2014.
Myndir og frétt af vefsíðu FS.