80 nemar brautskráðir frá FS
Áttatíu nemar voru brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja á vorönn 2006 sem var slitið á sal skólans í gær. Að þessu sinni útskrifuðust 44 stúdentar, 11 sjúkraliðar, 7 brautskráðust af starfsbraut, 6 úr verknámi og 12 af flugþjónustubraut. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 49 en karlar 31. Alls komu 49 úr Reykjanesbæ, 12 úr Grindavík, 6 komu úr Sandgerði og Garði, 3 úr Vogum og einn úr Garðabæ, Kópavogi, Neskaupstað og Stykkishólmi.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Arnar Magnússon fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda. Erlingur Þorsteinsson og Ómar Ragnarsson fengu viðurkenningu fyrir góðan árangur í tölvugreinum, Jóhanna Marsibil Pálsdóttir og Marta Sigurðardóttir fyrir árangur sinn í frönsku og Pálmi Steinar Guðmundsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í sérgreinum húsasmíða. Nemendur starfsbrautar fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur; Árni Þór Rafnsson fyrir stærðfræði, Bryndís Brynjólfsdóttir fyrir tölvugreinar, Davíð Már Guðmundsson fyrir myndlist og Sigríður Karen Ásgeirsdóttir fyrir textíl en Sigríður fékk einnig viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á starfsbraut. Linda Rós Björgvinsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í bókfærslu og þýsku og Bergrún Snæbjörnsdóttir fyrir árangur sinn í sögu, ensku og spænsku. Eva Sólveig Þórðardóttir fékk viðurkenningu fyrir spænsku, myndlist og textíl- og fatahönnun en við útskriftina klæddist hún kjól sem hún hannaði og saumaði. Haraldur Haraldsson fékk gjöf frá Danska menntamálaráðuneytinu fyrir góðan árangur í dönsku en hann fékk einnig viðurkenningar fyrir árangur sinn í eðlis- og efnafræði, ensku og þýsku.
Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Baldur Þórir Guðmundsson þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Að þessu sinni hlaut Haraldur Haraldsson viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og hann hlaut einnig viðurkenningar fyrir árangur sinn í tungumálum, stærðfræði og raungreinum.
Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands, afhenti skólanum gjöf til minningar um Jón Rúnar Árnason og Vilborgu Jónsdóttur sem létust af slysförum 30. nóvember 2000. Gjöfin er kennsluforritið Festo fyrir vökva- og loftstýrikerfi og kemur að góðum notum við kennslu á vélstjórnarbraut skólans. Jón Rúnar var um árabil formaður Vélstjórafélags Suðurnesja og síðar stjórnarmaður hjá Vélstjórafélagi Íslands en það voru þessi félög sem færðu skólanum þessa veglegu gjöf.Fulltrúar Suðurnesjadeildar Sjúkraliðafélagsins gáfu sjúkraliðum blóm og gjafir við útskriftina en nemendur afhentu deildinni gjöf að athöfn lokinni og kennurum sínum blóm.
Við lok athafnarinnar kvaddi skólameistari Oddnýju Harðardóttur og Kristján Jóhannesson en þau láta nú bæði af störfum eftir að hafa starfað við skólann um árabil. Voru þeim færðar gjafir af því tilefni og þökkuð vel unnin störf í þágu skólans. Oddný fékk afhent gullmerki skólans og Kristján fékk silfurmerki.
Texti: www.fss.is
Hér má sjá myndasafn frá útskriftinni Vf-myndir/Þorgils