80-90 milljarða álver í Helguvík
„Þetta er ánægjulegur áfangi sem markar þáttaskil í löngu undirbúningsferli. Við höfum fundið fyrir gríðarlegum áhuga og stuðningi í samfélaginu og hlökkum til að vinna með heimamönnum að þessu verkefni. Þeir hafa stutt okkur og hvatt ötullega frá upphafi.“ sagði Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls í morgun þegar undirbúningsframkvæmdir hófust í Helguvík.
Bygging álvers hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og fyrr í vikunni gerði umhverfisráðherra athugasemdir við þá ákvörðun bæjarfélaganna Reykjanesbæjar og Garðs að gefa út byggingarleyfi fyrir álveri.
Ragnar sagði að tekin yrði fyrsta skóflustunga innan tíðar að kerskála. Áætlað er að hefja starfsemi í álverinu síðla árs 2010 eða eftir um tvö og hálft ár. Heildarkostnaður er áætlaður 80 til 90 milljarðar króna. Bæjarstjórarnir Árni og Oddný voru ánægð með að sjá að undirbúningsframkvæmdir voru hafnar og sögðust bjartsýn á framtíð svæðisins.
Neðri mynd: Þorsteinn Erlingsson, bæjarfulltrúi og útgerðarmaður kom í fiskistígvélunum úr loðnunni sem m.a. er unnin í Helguvík og smellti myndum af bæjarstjórunum Árna og Oddnýju og Laufeyju forseta bæjarstjórnar Garðs.
Efri mynd: Gröftur hafinn í Helguvík. Starfsmenn frá Norðuráli og verktakar voru mættir í bítið í morgun í Helguvík.