70 unglingar missa sumarvinnuna
70 unglingar af Suðurnesjum hafa misst sumarvinnu á Keflavíkurflugvelli vegna þess að ekki má gera bakgrunnsskoðun á börnum undir lögaldri. Foreldrar barnanna eru afar ósáttir og hafa þeir leitað svara hjá Innanríkisráðuneytinu.
Hertar reglur varðandi bakgrunnsskoðun á flugvellinum hafa orðið til þess að ungmennin sem staðið hafa í ráðningarferli frá því í janúar hafa misst sumarvinnu sína í flugstöðinni. Ríkislögreglustjóri lét vita af því síðastliðinn fimmtudag að ekki megi gera bakgrunnsskoðun á þeim sem eru undir lögaldri þrátt fyrir samþykki forráðamanna.
Foreldrar barnanna sem eru afar ósáttir segja marga mánuði frá því að reglur um herta bakgrunnsskoðun fóru í gegn á þingi og furða sig á því að börnin hafi ekki verið látin vita af gangi mála fyrr. Mörg ungmennin hafi þegar neitað öðrum atvinnutækifærum fyrir sumarið.
Umsvif á flugvellinum eru óðum að aukast enda sumarið að ganga í garð og engar lausnir eru í sjónmáli í þessu máli enn sem komið er en hópur foreldra bíður eftir svörum frá Innanríkisráðuneytinu.