70 síður frá Víkurfréttum í þessari viku
Útvarpsmaðurinn Doddi litli úr Njarðvíkum skellti sér í eldgömul jakkaföt og gerði nýtt lag. Doddi er í viðtali við Víkurfréttir í þessari viku en 70 síðna blað er komið á vefinn. Þetta er þrettánda rafræna útgáfan okkar en blaðið hefur verið að fá frábærar móttökur hjá lesendum.
Í blaði vikunnar greinum við frá miklum áhuga á íbúðum í hæsta fjölbýlishúsi Reykjanesbæjar. Þar er einnig sagt frá vatnsrennibraut og nýjum göngustíg.
Lýðveldisfáninn frá Þingvöllum 1944 endaði í Keflavík árið eftir. Hann er fyrsta kynslóð stærsta fána á Íslandi sem ávallt er flaggað í skrúðgarðinum í Keflavík á þjóðhátíðardaginn og þegar forsetinn kemur í heimsókn. Fáninn sem blakti í skrúðgarðinum á 17. júní 2020 er þriðja kynslóð risafánans.
Við gerum þjóðhátíðardeginum góð skil í blaði vikunnar. Myndarleg umfjöllun og einnig myndskeið frá hátíðarhöldunum.
Við heimsækjum Fjölsmiðjuna á Suðurnesjum sem hefur opnað reiðhjólaverkstæði. Myndskeið fylgir þeirri umfjöllun.
Við segjum ykkur vikulegar aflafréttir og greinum frá komu ferðamanna sem eru að snúa hjólum atvinnulífsins í gang að nýju á Suðurnesjum.
Skýrsla um strand flutningaskipsins Fjordvik í Helguvík árið 2018 hefur verið gefin út. Við kíkjum í skýrsluna og greinum frá niðurstöðu hennar. Einnig eru nokkur myndskeið úr atburðarásinni til að rifja upp hvað gerðist.
Kísilverið í Helguvík er til umfjöllunar en umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur gefið umsögn sem mælir ekki með verkefninu.
Víkurfréttir verða 40 ára á þessu ári og af því tilefni munum við setja aukinn þunga í umfjöllun um gamalt efni úr blaðinu í sumar. Í Víkurfréttum í þessari viku er kíkt í Rockville á Miðnesheiði, sem var og hét. Þar voru oft haldnar miklar veislur sem ekki fóru vel í alla. Allt um Rockville í blaði vikunnar.
Halldór Lárusson tónlistarskólastjóri í Sandgerði kynnir okkur fyrir sínum fimm uppáhaldsplötum.
Unnar Steinn Bjarndal er bæjarlögmaður Reykjanesbæjar. Sem betur fer varð hann ekki læknir!
Keilir útskrifaði 209 nemendur sl. föstudag. Við vorum þar og birtum veglega umfjöllun í blaði vikunnar, ásamt myndskeiði frá útskriftinni.
Lilja Kristrún Steinarsdóttir væri til í að vera Jennifer Aniston í einn dag. Hvers vegna? Svarið er í blaðinu.
Við tókum netspjall við Skarphéðinn Guðmundsson úr Garðinum en hann rekur ferðaþjónustu á Sólheimum.
Bergur Daði Ágústsson er líka í netspjalli eins og Guðni Ívar Guðmundsson.
Myndarleg umfjöllun um knattspyrnu er í blaði vikunnar. Við kynnum nokkur Suðurnesjalið til leiks og sýnum ykkur stórar og flottar myndir úr fyrstu leikjum sumarsins í Grindavík og Keflavík.
Ragnheiður Elín Árnadóttir er svo með lokaorð Víkurfrétta að þessu sinni.