70 ára gömlu húsi við sjóinn breytt í gistihús
Líflegt í ferðaþjónustunni í Garðinum
Á Rafnkelsstaðavegi í Garðinum er gistiheimilið Seaside Guesthouse en það hefur nánast verið fullbókað í allt sumar. Helst gista þar erlendir ferðamenn en algengast er að fólk gisti eina nótt annað hvort fyrir eða eftir flug. Sumir gista hins vegar lengur og ferðast þá um Reykjanesið í leiðinni. Dóra Garðarsdóttir rekur gistiheimilið ásamt eiginmanni sínum Ögmundi Magnússyni og segja þau alla gesti hafa verið ánægða með dvölina í Garðinum. „Við bendum þeim á staði til þess að skoða og flestallir fara allavega út að Garðskagavita og margir borða einnig þar á veitingastaðnum Tveimur Vitum. Einnig er vinsælt að taka göngutúr meðfram sjónum en stutt er í fjöruna frá húsinu.“
Dóra og Ögmundur opnuðu gistiheimilið í fyrrasumar og hefur reksturinn gengið ótrúlega vel, en yfir veturinnn búa þau á höfuðborgarsvæðinu. Þau vildu nýta húsið betur, sem hafði um árabil verið notað sem sumarhús og nú njóta þau þess að þjónusta ferðamenn alla daga sumarsins.
Þetta hvíta myndarlega hús, sem hýsir nú ferðamenn var ekki innréttað sem gistiheimili enda var það áður íbúðarhúsnæði í eigu fjölskyldu Dóru. „Húsið er 70 ára gamalt og var áður í eigu afa míns, Guðmundar Jónssonar og hét það Eggertsstaðir. Hann var með útgerð hér rétt fyrir neðan húsið áður en hann flutti útgerðina til Sandgerðis, stækkaði við sig og stofnaði þar Útgerðina Rafn,“ segir Dóra. Húsið liggur ekki langt frá fjörunni og sjónum og er umhverfið í kring mjög heillandi. Í bakgarðinum hangir hvítur þvottur þar sem golan leikur um hann og sér til þess að ferðamenn fái fersk rúmföt. Á bak við húsið eru nokkrir stólar þar sem fólk sest oft á kvöldin og nýtur útsýnisins en þar glittir í Snæfellsjökul, Esjuna og Keili. Í næsta húsi eru hanar og ef börn gista á gistiheimilinu leyfir eigandi dýranna þeim að kíkja í heimsókn. Það er því ekki langt að sækja alvöru íslenska sveit þar sem kyrrð og rómantík hangir í loftinu.