7. bekkur í Sandgerði sigraði í keppninni „Tóbakslaus bekkur“
Sjöundi bekkur FS í Grunnskólanum í Sandgerði vann fyrstu verðlaun í átaksverkefni Embættis landslæknis, Tóbakslaus bekkur.
Nemendur hafa unnið að verkefninu í allan vetur og gerðu ljóðabók, plaköt, myndasögu, bækling og héldu íbúafund þar sem fjallað var um skaðsemi tóbaksnotkunar. Haldin var hugmyndasamkeppni í bekknum um útlit á tóbaksbannsskiltum til að setja á íþróttasvæði á vegum bæjarins. Hugmyndirnar voru mjög flottar og voru valdar sex myndir og útbúin skilti sem hafa nú verið hengd upp í Íþróttamiðstöð Sandgerðis.
Á næstu dögum verður einnig sett upp skilti við Reynisvöllinn. Í ár tóku 240 bekkir víðsvegar um landið þátt í keppninni. Á skólaárinu þurftu bekkirnir að staðfesta fimm sinnum að þeir væru tóbakslausir og skila inn lokaverkefninu sínu. Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri og Ólafur Þór Ólafsson forseti bæjarstjórnar heimsóttu bekkinn á dögunum og færðu þeim hamingjuóskir og viðurkenningu fyrir frábært verkefni og glæsilegan árangur.