Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

64 atvinnulausir alfarið komnir á framfæri bæjarins
Föstudagur 24. ágúst 2012 kl. 09:56

64 atvinnulausir alfarið komnir á framfæri bæjarins

Þrátt fyrir að atvinnuleysistölur sýnist með lægra móti nú um stundir er það staðreynd að fjöldi langtíma atvinnulausra hefur fjórfaldast á tveimur árum. 


280 manns, eða tæplega 45% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í Reykjanesbæ í júlí sl. hafa verið þar í tvö ár eða lengur. Um 70 manns töldu þennan hóp í júlí árið 2010. Þá hafa tugir manna þegar  misst bótaréttinn og 64 úr þeim hópi eru alfarið komnir á framfæri Reykjanesbæjar. Þetta kom fram í bókun Árna Sigfússonar bæjarstjóra Reykjanesbæjar á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á þriðjudagskvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í bókuninni segir einnig að „staðreyndin er sú að atvinnulausir hafa flutt erlendis, sótt í nám, farið á örorkubætur eða fallið af atvinnuleysiskrá vegna þess að skráin hendir fólki út eftir þrjú eða fjögur ár.
Hópur langtímaatvinnulausra og að sjálfsögðu þeir sem hafa misst bótarétt, sækja í auknum þunga til félagsþjónustu Reykjanesbæjar eftir lausnum.

Án atvinnu endar þessi hópur alfarið á framfæri ríkis og sveitarfélaga. Þannig er þegar orðið um 64 sem misst hafa atvinnubótaréttinn. Tugir manna til viðbótar eru á þessari leið, ef ekki rætist úr atvinnumálum. Talið er að fjöldi atvinnulausra sem missir bótarétt í vetur geti numið þúsundum á landinu.

Heildarfjöldi umsækjenda um fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins nam 179 manns í júlí. Þeir sem enn eru á atvinnuleysisskrá eiga ekki rétt á fjárhagsaðstoð nema mjög sérstakar aðstæður krefji þess, en öðru gildir um þá sem hafa misst bótaréttinn.

Framlög til fjárhagsaðstoðar hjá Reykjanesbæ hafa tvöfaldast frá áætlun, og stefnir í 120 milljónir kr. yfir áætlun. Í heild stefnir í að fjárhagsaðstoð bæjarfélagsins nemi 270 milljónum kr. Við stöndum undir því en óneitanlega væri æskilegra að þessir fjármunir nýttust fólkinu til atvinnuuppbyggingar.
Öllum má vera ljóst að atvinnuleysi skapast af starfaskorti. Þau fjölmörgu atvinnuúrræði sem bæjarfélagið hefur lagt drög að með fjárfestum, innlendum sem erlendum, geta gjörbreytt þessari stöðu á örfáum mánuðum. Við höfum ítrekað hvatt til aukinnar samstöðu ríkisins við bæjarfélagið um þau verkefni,“ segir í bókun Árna Sigfússonar bæjarstjóra Reykjanesbæjar á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.