Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

63 útskrifaðir frá FS í gær
Sunnudagur 18. desember 2011 kl. 13:52

63 útskrifaðir frá FS í gær

Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 17. desember. Að þessu sinni útskrifuðust 63 nemendur; 50 stúdentar, 9 úr verknámi og fjórir meistarar. Karlar voru 27 og konur 36. Alls komu 40 úr Reykjanesbæ, 12 úr Grindavík, 3 komu úr Garði, tveir úr Vogum og einn úr Sandgerði. Auk þess komu þrír úr Reykjavík og einn úr Hafnarfirði og frá Ólafsvík.

Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson aðstoðarskólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp í forföllum Ólafs Jóns Arnbjörnssonar skólameistara og Elín Rut Ólafsdóttir áfangastjóri flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Jenný Jónsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Haukur Viðar Ægisson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlist en Hanna Birna Valdimarsdóttir nýstúdent lék á gítar og Elfa Ingvadóttir nýstúdent lék á gítar og söng en Gunnlaugur Sigurðsson stærðfræðikennari lék með henni á gítar.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Karl Daníel Magnússon fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda. Brynhildur Aradóttir, Veróníka Björk Gunnarsdóttir og Guðný Gunnarsdóttir fengu verðlaun fyrir fata- og textílhönnun, Ásta Björk Jónsdóttir fyrir árangur sinn í margmiðlun, Sara Björk Southon fyrir fyrir sálfræði og Bryndís Hallsdóttir fyrir árangur í bókfærslu. Andri Fannar Freysson, Elísa Sveinsdóttir og Óli Ragnar Alexandersson fengu viðurkenningar fyrir árangur sinn í spænsku, Daníel Martyn Knipe fyrir ensku og Arna Guðmundsdóttir fyrir dönsku. Gréta Halldórsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í eðlisfræði og Jóna Helena Bjarnadóttir fyrir árangur sinn í eðlis- og efnafræði. Jenný Jónsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í félagsfræði og hún fékk einnig viðurkenningu í sálar- og uppeldisfræði. Jóel Rósinkrans Kristjánsson fékk gjafir frá Íslenska stærðfræðifélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði. Jóel fékk gjöf frá Danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku og hann fékk auk þess viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í hagfræði, hagfræði og viðskiptafræði, bókfærslu, þýsku og stærðfræði. Jóel fékk að lokum 100.000 kr. styrk úr skólasjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Að þessu sinni fengu Andrea Björt Ólafsdóttir, Elvar Ingi Ragnarsson, Helena Sirrý Pétursdóttir og Sæmundur Már Sæmundsson öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í lífsleikni og ræðumennsku.

Íslandsbanki veitti nemendum viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Sighvatur Ingi Gunnarsson útibússtjóri þær fyrir hönd bankans. Jenný Jónsdóttir fékk viðurkenningu fyrir árangur í samfélagsgreinum og Jóel Rósinkrans Kristjánsson fyrir tungumál og einnig fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Að lokum sleit Kristján Ásmundsson aðstoðarskólameistari haustönn 2011.

Myndasafn frá athöfn má sjá hér

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

-

-

-