60 milljóna vinningur til Grindavíkur
Í gær var var dregið í Milljónaveltu Happdrættis Háskóla Íslands. Veltupotturinn stóð í 60 milljónum króna enda hafði hann ekki gengið út undanfarna fimm mánuði. Skemmst er frá því að segja að potturinn gekk út að þessu sinni, og féll í skaut ríflega fertugs karlmanns á Suðurnesjum að því er fram kemur á heimasíðu happdrættisins. Samkvæmt vef Grindavíkurbæjar fór vinningurinn til Grindavíkur.
Vinningurinn kom á trompmiða sem hann hafði átt í nokkur ár, ásamt fleiri miðum. Einnig voru dregnir út fimm einnar milljónar króna vinningar, allir á selda miða og gengu þeir því allir út.
Milljónaveltan heldur áfram göngu sinni í október, en verður þá á byrjunarreit. 10 milljónir króna byrja þá að velta og getur potturinn því orðið hæst 30 milljónir í lok ársins, gangi hann ekki út fyrr.