6. bekkingar fá fræðslu um reiðhjólahjálma
Reiðhjóladagar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Sjóvár.
Slysavarnadeildir Slysavarnafélagsins Landsbjargar vítt og breitt um land hafa að undanförnu heimsótt nemendur í sjötta bekk í fjölda grunnskóla til að fræða nemendur um mikilvægi þess að vera með rétt stillta reiðhjólahjálma. Í heimsóknunum fengu börnin leiðbeiningar um hvernig hjálmar sitja rétt og til að auka færni þeirra á reiðhjóli spreyttu þau sig á hjólaþraut sem var sett upp á skólalóðunum. Einnig voru hengd upp veggspjöld í skólunum þar sem sjá má rétta stillingu hjálma. Sérfræðingar í forvörnum hjá Sjóvá og Slysavarnafélaginu Landsbjörg skipulögðu fræðsluna en framkvæmdin var í höndum slysavarnadeildanna.
Skyldubúnaður reiðhjóla virðist vefjast fyrir mörgum og því voru einnig hengd upp veggspjöld þar sem farið var yfir réttan búnað reiðhjóla. Dæmi um skyldubúnað er t.d. ljós bæði að aftan og framan auk glitaugu og láss. Um þetta má fræðast nánar á vef Umferðarstofu. Þegar hjálmarnir höfðu verið stilltir svöruðu börnin léttum spurningum. Dregið var úr réttum lausnum og heppnir krakkar fengu hjólalása í verðlaun.
Hvers vegna fræðsla til 6. bekkjar?
Ástæðan fyrir því að börn í sjötta bekk voru valin sem markhópur er sú að það er sá aldurshópur sem notar reiðhjól mjög mikið og hefur öðlast allnokkuð sjálfstraust til þess að hjóla í umferðinni. Það er því mjög nauðsynlegt að brýna fyrir þessum hópi mikilvægi þess að nota hjálm, ekki síst í ljósi þess að um þessar mundir leggur samfélagið mikla áherslu á aukna reiðhjólanotkun. Með bættum samgöngum reiðhjólafólks er fyrirséð að reiðhjólum muni fjölga í umferðinni á næstu árum. Það er því mikilvægt að efla hæfni og þekkingu barnanna og búa þau betur undir framtíðina.
Tíðni slysa og orsakir þeirra
Reiðhjól eru ekki skráningaskyld og því liggja ekki fyrir upplýsingar um fjölda reiðhjóla á landinu né heldur raunfjölda reiðhjólaslysa. Í nýlegri könnun kom fram að lest slys eiga sér stað á vorin og yfir sumarið. Þeir sem ekki voru ekki með hjálm voru oftar með áverka á höfði og þeir einstaklingar voru oftar lagðir á sjúkrahús en aðrir slasaðir. Algengustu slysin verða við samstuð eða þegar ekið er á hjólandi. Oft er því um að kenna að hjólreiðamaður er á of mikilli ferð og getur því ekki stöðvað í tæka tíð eða hann verður, af einhverjum orsökum, ekki var við aðra í umferðinni.
Alvarlegustu reiðhjólaslysin eru höfuðáverkar og er því til mikils að vinna sé unnt að fækka slíkum slysum. Þar skiptir hjálmurinn höfuðmáli.