59,6% vilja Árna sem bæjarstjóra
Talnakönnun með skoðanakönnun í Reykjanesbæ
Tæp 60% þátttakenda í könnun Talnakönnunar ehf. vilja sjá Árna Sigfússon sem næsta bæjarstjóra í Reykjanesbæ. 21% vildu sjá óháðan/ópólitískan bæjarstjóra. Þetta kemur fram í niðurstöðum Talnakönnunar sem framkvæmdi skoðanakönnun í Reykjanebæ.
Talnakönnun ehf. gerði könnun um sveitarstjórnarkosningarnar í Reykjanesbæ dagana 3. til 4. maí sl. Spurt var: Hvern viltu sjá sem næsta bæjarstjóra í Reykjanesbæ?
Samkvæmt niðurstöðunni fær Árni Sigfússon 59,6% og óháður/ópólitískur bæjarstjóri 21%. Oddvitar annarra framboða fengu mun minna. Gunnar Þórarinsson fékk 9,6% fylgi í könnuninn en aðrir oddvitar 1,9% eða minna.
„Ég er mjög þakklátur þeim stuðningi sem bæjarbúar sýna mér með þessu - en minni á að það getur orðið flókið að standa í stafni ef mörg flokksbrot þarf til að mynda meirihluta. Reykjanesbær þarf skýra sýn áfram og við megum ekki glutra niður því sem við höfum byggt upp,“ segir Árni Sigfússon í samtali við Víkurfréttir um niðurstöður könnunarinnar.
Könnunin var framkvæmd þannig að spyrlar höfðu aðeins símanúmer en ekki nafn og heimilisfang þeirra sem hringt var í. Svör voru skráð í sérstök skjöl og ekki hægt að tengja á milli þeirra og símanúmeranna. 53% svörun fékkst við spurningunni um bæjarstjóra. Byrjað var með úrtak með 1111 símanúmerum. Svör að öllu leyti eða hluta fengust frá 367 einstaklingum.