Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

52 nemendur útskrifast á haustönn FS
Sunnudagur 18. desember 2005 kl. 14:30

52 nemendur útskrifast á haustönn FS

Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 17. desember. Að þessu sinni útskrifuðust 52 nemendur; 38 stúdentar, 13 iðnnemar og einn af starfsnámsbraut. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 29 en karlar 23. Alls komu 32 úr Reykjanesbæ, 7 úr Grindavík, 6 komu úr Sandgerði og Garði og einn úr Reykjavík.

Við upphaf athafnarinnar risu gestir úr sætum og minntust Gísla Torfasonar og Öldu Jensdóttur með mínútuþögn. Þau Gísli og Alda létust fyrr á árinu en þau störfuðu bæði við skólann í áratugi.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Páll Guðmundsson fékk gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum, ensku og þýsku. Inga Lilja Eiríksdóttir fékk einnig gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Auður Sólrún Ólafsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í þýsku og gjöf frá Innrömmun Suðurnesja fyrir árangur sinn í myndlist. Þær Katla Margrét Hjartardóttir og Linda Ström fengi viðurkenningu frá Danska menntamálaráðuneytinu fyrir góðan árangur í dönsku. Þá fékk Sigrún Guðný Halldórsdóttir viðurkenningu fyrir árangur í fata- og textílhönnun, Rajna Todorovic fyrir spænsku og Tinna Björk Haraldsdóttir fyrir þýsku.

Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Að þessu sinni hlaut Páll Guðmundsson viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og hann hlaut einnig viðurkenningar fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum, íslensku, samfélagsgreinum og tungumálum. Linda Ström hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í iðngreinum.

Við athöfnina var skólanum afhentur minningarsjóður Gísla Torfasonar til vörslu. Það var ekkja Gísla, Sumarrós Sigurðardóttir dönskukennari, sem afhenti Oddnýju Harðardóttur skólameistara stofnfé sjóðsins. Stefnt er að því að veita fé úr sjóðnum tvisvar á ári til nemenda skólans sem eru illa staddir að einhverju leyti. Sjóðurinn verður fjármagnaður með sölu minningarkorta sem verða seld á skrifstofu skólans og á Bókasafni Reykjanesbæjar. Það voru tveir kennarar skólans sem unnu kortið; Íris Jónsdóttir málaði myndina "Umhyggju" sem prýðir framhlið þess og Bragi Einarsson hannaði útlit kortsins.

Bræðurnir Halldór, Kristinn og Sævar Þorkell Jenssynir afhentu skólanum bókasafn systur sinnar, Öldu Jensdóttur íslenskukennara. Alda lét eftir sig um 1500 bækur sem verða nýttar á bókasafni skólans og í íslenskudeild. Þetta er vegleg gjöf sem vert er að þakka fyrir.

Hjálmar Árnason, formaður byggingarnefndar FS, afhenti síðan nýbyggingu fyrir hönd nefndarinnar. Byggingin var tekin í notkun fyrir rúmu ári en var nú formlega afhent skólanum enda er afskiptum byggingarnefndarinnar nú lokið. Við þetta tækifæri afhenti Hjálmar skólameistara lykil að byggingunni.

Að lokum sleit Oddný Harðardóttir skólameistari haustönn 2005.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024