4G farsímanet Símans í Garðinn
4G farsímanet Símans nær nú til 90% landsmanna. Garður, Djúpivogur, Skógar undir Eyjafjöllum, Vík, Kirkjubæjarklaustur og Öndverðarnes eru nú með 4G samband.
Síminn vinnur sem fyrr að því að þétta 4G netið á höfuðborgarsvæðinu. Netið hefur einnig verið þétt á Akureyri og Akranesi. Það eykur á upplifunina. Á árinu hefur Síminn einnig sett upp 4G í Borgarfirði eystri og Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit.
„Við hjá Símanum stefnum á að gera betur og ná til 93,5% landsmanna í lok árs,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.
Farsímanetið verður æ mikilvægara í nútímasamfélagi. „Við sjáum að gagnanotkunin á farsímaneti Símans eykst gríðarlega milli ára. Hún jókst um rétt tæp 75% að jafnaði milli áranna 2014 og 2015.“
Síminn tilkynnti í ágúst í fyrra um nýjan fimm ára samstarfssamning við Ericsson um frekari útbreiðslu og öflugra farsímanet Símans hér á landi. Samhliða uppsetningu 4G LTE snjallsenda verður farsímakerfið allt uppfært til að tryggja uppbyggingu netkerfis á heimsmælikvarða.
Síminn þéttir einnig 3G net sitt og er nú enn öflugra farsímanet í Hvalfirði, Hvanneyri og Stykkishólmi – sem var meðal fyrstu bæja með 4G. 3G net Símans nær nú til 99% landsmanna.