Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

45 milljónir til 35 verkefna
Mánudagur 14. mars 2016 kl. 13:29

45 milljónir til 35 verkefna

- úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja hefur úthlutað styrkjum fyrir árið 2016. Sjóðurinn er byggður á samningi um Sóknaráætlun Suðurnesja fyrir árin 2015 til 2019, sem Atvinnu- og Nýsköpunarráðuneytið, Mennta- og Menningarmálaráðuneytið og Samband Sveitafélaga Suðurnesjum hafa gert með sér.
Sjóðurinn hefur það markmið að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun Suðurnesja, með því að treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni svæðisins. Hlutverk Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna, er falla að Sóknaráætlun Suðurnesja.

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja er samkeppnissjóður. Umsóknir eru metnar út frá markmiðum og áherslum sem fram koma í úthlutunarreglum sjóðsins. Umsóknir til Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja að þessu sinni voru 63 og hljóðuðu styrkbeiðnirnar upp á rúmar 127 milljónir króna. Að þessu sinni er úthlutað 45 milljónum til 35 verkefna:

Sjö verkefnanna flokkast undir stofn- og rekstrarstyrki til menningamála og hljóta þau verkefni alls 10,8 milljónir í styrk.

Fimmtán verkefnanna tilheyra menningarmálum og hljóta þau verkefni alls 13,3 milljónir í styrk.
Þrettán verkefnanna eru nýsköpunar- og þróunarverkefni og hljóta þau verkefni alls 20,9 milljónir í styrk.

Nr. 1. Rokkbúðir gegn þöggun. – Umsækjand: Stelpur rokka. Verkefnastjóri Áslaug Einarsdóttir.
Rokkbúðir gegn þöggun eru 4 daga rokkbúðir á Ásbrú fyrir stelpur og transkrakka á aldrinum 16 til 20 ára. Markmið búðanna er að valdefla stelpur í gegnum tónlist og fræða þær um leið um samtakamátt gegn kynbundnu ofbeldi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 250.000 kr.

Nr. 2. Hæfileikar SamSuð 2016 – Umsækjandi: Samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum. Verkefnastjóri: Stefán Arinbjarnarson.
Verkefnið lýtur að vettvangi fyrir ungmenni á Suðurnesjum til að sýna og rækta hæfileika sína. Keppni sem þessi dregur fram að á Suðurnesjum er margt ungt hæfileikafólk sem er um leið góðar fyrirmyndir fyrir jafningjana og hvetur þá til dáða.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð  400.000 kr.

Nr. 3. Sálumessa – Umsækjandi: Sigurður Sævarsson og er hann einnig verkefnastjóri.
Um er að ræða nýtt tónverk fyrir blandaðan kór. Stefnt er að því að frumflytja verkið á Allrarheilagramessu. Tónskáldið er Listamaður Reykjanesbæjar.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.

Nr. 4. Söngvaskáld á Suðurnesjum –  Umsækjandi: Dagný Gísladóttir og er hún einnig verkefnastjóri.
Tónleikaröðin Söngvaskáld á Suðurnesjum er verkefni sem miðar að því að kynna tónlistararf og tónlistarmenningu á Suðurnesjum. Fjallað er um menningarlegan bakgrunn þriggja listamanna og tónlistasögu í máli og tónlistarflutningi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.

Nr. 5. Rekstur sýninga Þekkingarseturs Suðurnesja yfir sumartímann – Umsækjandi: Þekkingarsetur Suðurnesja. Verkefnastjóri: Hanna María Kristjánsdóttir.
Verkefnið flokkast undir Stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála. Um árabil hafa tvær sýningar verið í húsi Þekkingarsetursins, náttúrugripasýning og hin glæsilega sýning Heimskautin heilla sem fjallar um líf og störf franska læknisins og heimskautafarans Jean Baptiste Charcot.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.

Nr. 6. Átthagastofa – Umsækjandi: Bókasafn Reykjanesbæjar. Verkefnastjóri: Anna Margrét Ólafsdóttir.
Átthagastofan mun varðveita upplýsingar um sögu, menningu og fræðslu af svæðinu. Verkefnið mun nýtast áhugafólki um sögu svæðisins en ekki síst þeim sem vinna með upplýsingar um svæðið, nemendur, leiðsögufólk, fræðafólk og ferðafólk.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.

Nr. 7. Guðni á trukknum – Umsækjandi: Steinbogi kvikmyndagerð ehf. Verkefnastjóri: Guðmundur Magnússon.
Verkefnið lýtur að gerð heimildarmyndar um Guðna Ingimundarson sem um hálfrar aldar skeið gerði út trukk sem er útbúinn með palli, spili og gálga. Þessi búnaður nýttist til fjölbreytilegra verkefna eins og féllu til og þörf var fyrir í útgerðar- og fiskvinnsluþorpi. Guðni er heiðursborgari Sveitarfélagsins Garðs.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.

Nr. 8. Nýting á umframorku með varmageymslu – Umsækjandi: Orkurannsóknir ehf. Verkefnastjóri: Krista Hannesdóttir.
Markmið verkefnisins er að nýta afgangsorku úr smávirkjunum, vind- eða fallvatnsvirkjunum með fasaskiptaefnum, en dæmi um slík fasaskiptaefni eru vötnuð sölt. Með frekari þróun verkefnisins býður það upp á að sprotafyrirtæki geti sérhæft sig í lausnum í nýtingu umframvarma.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.

Nr. 9. Kynning á bókmenntaarfinum – Umsækjandi: Bókasafn Reykjanesbæjar ásamt almenningsbókasöfnunum í Garði, Grindavík, Sandgerði og Vogum. Verkefnastjóri: Stefanía Gunnarsdóttir.
Markmiðið með verkefninu er að kynna bókmenntaarfinn, minna á gamla og góða rithöfunda og bókmenntaverk, kynna yngri höfunda og verk þeirra, leggja áherslu á læsi og mikilvægi lesturs. Jafnframt á verkefnið að auka  þekkingu almennings á bókmenntum og törfraheimi bókmenntanna.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 750.000 kr.

Nr. 10. Menningarfélag Hafna – Umsækjandi: Árni Hinrik Hjartarson og er hann einnig verkefnastjóri.
Verkefnið flokkast undir Stofn- og rekstrarstyrki á sviði menningarmála. Í samstarfi við sóknarnefnd Kirkjuvogskirkju er fyrirhugað að hafa Safnaðarheimili sóknarinnar þ.e.a.s. Skólann opinn fyrir gesti og gangandi á sumrin og bjóða m.a. upp á listmuni og minjagripi gerða af fólkinu á svæðinu ásamt kaffisölu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 800.000 kr.

Nr. 11. Akstursdagbók.is – Umsækjandi: Uppvís ehf. Verkefnastjóri Helgi Þ. Kristjánsson.
Verkefnið lýtur að markaðssetningu Aksturdagbókarinnar en það er nýsköpunarverkefni á tæknisviði í vefsíðuformi, sem er tilbúið til markaðssetningar og leysir af hólmi handskrifaðar bækur sem einstaklingar nota í dag til skráningar á akstri á eigin bifreið í þágu vinnuveitanda.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 800.000 kr.

Nr. 12. Ávinningur Heilsu – Umsækjandi: Lúxdís ehf. Verkefnastjóri: Svandís Ósk Gestsdóttir
Verkefnið lýtur að markaðssetningu á íslenskum húðvörum undir nafninu SkinBoss. Varan er samsett úr hráefnum sem ekki hafa sést í íslenskum húðvörum áður. SkinBoss línan er sérstaklega fyrir exem húð og gegn öldrun.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 800.000 kr.

Nr. 13. Upplýsinga- og fræðsluskilti í Vogum og á Vatnsleysuströnd – Umsækjandi: Hilmar Egill Sveinbjörnsson og er hann einnig verkefnastjóri.
Í þessum verkhluta er gert ráð fyrir hönnun og uppsetningu fjögurra skilta sem mynda með þeim skiltum sem fyrir eru fræðsluheild um menningu, sögu og náttúru sveitarfélagsinsins. Skiltunum er komið fyrir á og við útivistarperlur með það að markmiði að dýpka upplifun gesta og sameina þannig náttúrupplifun, útivist, fræðslu og skemmtun.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 900.000 kr.

Nr. 14. Sjólyst, annar áfangi innan dyra – Umsækjandi: Hollvinir Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst. Verkefnastjóri: Erna M. Sveinbjarnardóttir.
Verkefnið sem flokkast undir Stofn- og rekstrarstyrkir á sviði menningarmála lýtur að því að endurgera Sjólyst í sem næst upprunalegri mynd.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.

Nr. 15. List án landamæra á Suðurnesjum 2016 – Umsækjandi: Sveitarfélögin 5 á Suðurnesjum. Verkefnastjóri: Guðlaug María Lewis.
Verkefnið er listahátíð með þátttöku fatlaðra og ófatlaðra listamanna, einstaklinga og hópa. Í ár er markmiðið að útvíkka hátíðina umtalsvert og bjóða upp á tónleika í Stapanum undir nafninu -  Hljómlist án landamæra.  
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.

Nr. 16. Með Blik í auga – Umsækjandi: Guðbrandur Einarsson og er hann einnig verkefnastjóri.  
Verkefnið lýtur að tónlistarsýningu sem flutt verður þrisvar sinnum í Andrews leikhúsinu á Ásbrú og er hluti af dagskrá Ljósanætur. Sýningunni er ætlað að örva tónlistarmenningu á Suðurnesjum og gera heimamönnum kleift að koma að uppsetningu sem stenst samanburð við það sem best gerist.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.

Nr. 17. Ferskir Vindar – Umsækjandi: Ferskir Vindar. Verkefnastjóri: Mireya Samper.
Verkefnið er einstakur viðburður sinnar tegundar á Íslandi og mun þar að auki vera í hópi stærstu listahátíða á landinu í dag. Næsta hátíð mun hefjast 17.12.2017.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.

Nr. 18. Óperurokktónleikar – Umsækjandi: Norðuróp óperufélag. Verkefnastjóri: Jóhann Smári Sævarsson.
Markmiðið með verkefninu er að leiða saman tónlistamenn sem starfa í mismunandi tónlistarstefnum og finna nýjan flöt á þekktum klassískum efnivið. Einnig er markmiðið að ná eyrum fleiri og nýrra áheyranda, ekki síst ungs fólks.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.

Nr. 19. Stemmarinn – Umsækjandi: Stemmarinn ehf. Verkefnastjóri: Rúnar Dór Daníelsson.
Verkefnið lýtur að smíðum afstemmingarhugbúnaðar sem sparar tíma við bókhaldsvinnslu hjá fyrirtækjum og um leið skilar áreiðanlegri niðurstöðu afstemmingarinnar. Tækifæri voru til staðar að færa afstemmingarvinnu inn í nútímann og nýta tæknina til þess að hafa ferlið sjálfvirkara.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.

Nr. 20. Gulldrengirnir úr Garðinum – Umsækjandi: Þorsteinn Surmeli. Verkefnastjóri Eyþór Sæmundsson.
Verkefnið er heimildarmynd um gullaldarár Víðis úr Garðinum í knattspyrnu karla 1983 tli 1991. Árangur liðsins vakti landsathygli og enn í dag er talað um gengi liðsins sem eitt mesta afrek íslenskrar íþróttasögu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.

Nr. 21. Markaðssókn og aukning sölustaða á innlendum markaði – Umsækjandi: Geoslilica Iceland ehf. Verkefnstjóri: Ágústa Valgeirsdóttir.
Markmiðið með verkefninu er að markaðssetja kísilsteinefni GeoSilica á innlendum markaði með sérstaka áherslu á landsbyggðina. Varan er fyrsta íslenska kísilfæðubótarefnið sem komið hefur á markaðinn. Fyrirtækið hefur aflað sér þekkingar á síðustu árum sem gerir það í algerri sérstöðu hvað varðar framleiðslu heilsuvara úr kísli.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.500.000 kr.

Nr. 22. GrasPro – Umsækjandi: Pitch ehf. Verkefnastjóri: Einar Friðrik Brynjarsson.
Verkefnið lýtur að afmörkuðum þætti í viðhaldskerfinu GrasPro. Um er að ræða nokkuð stóran þátt sem lýtur að viðhaldi gervigrasvalla. Mun uppfærslan opna möguleika á mun stærri markaði ásamt að uppfylla kröfur þess markaðar sem nú þegar er stefnt inn á.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.500.000 kr.

Nr. 23. Mekano fjöltengi – Umsækjandi: Mekano ehf. Verkefnastjóri: Sigurður Örn Hreindal Hannesson.
Verkefnið lýtur að framleiðslu og markaðssetningu Mekano fjöltengis, sem hefur farið í gegnum hönnun og er frumgerð í smíðum. Markaðssetning lýtur að erlendum mörkuðum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.500.000 kr.

Nr. 24. Endurbygging Gömlu búðar 3. áfangi – Umsækjandi: Reykjanesbær. Verkefnastjóri: Valgerður Guðmundsdóttir.
Verkefnið sem flokkast undir Stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála,  lýtur að uppbyggingu Gömlu búðar sem reist var H.P. Duus kaupmanni í Keflavík árið 1871.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.500.000 kr.

Nr. 25. Sýningar í byggðasafni og Garðskagavita – þróun og efnisvinnsla – Umsækjandi: Garðskagi ehf. Verkefnastjóri: Jóhann Ísberg.
Verkefnið lýtur að fyrsta flokks afþreyingu og þjónustu á Garðskaga fyrir erlenda ferðamenn jafnt sem íslendinga. Verkefninu er ætlað að styðja við sögu, menningu og listir svæðisins.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Nr. 26. Safnahelgi á Suðurnesjum – Umsækjandi: Sveitarfélögin fimm á Suðurnesjum. Verkefnastjóri: Valgerður Guðmundsdóttir.
Safnahelgi á Suðurnesjum er sameiginleg kynning allra safna, sýninga og setra á Suðurnesjum sem liður í menningarferðaþjónustu utan hins hefðbundna ferðamannatíma.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Nr. 27. Fuglaskoðunarkort af Reykjanesi – Umsækjandi: Þekkingarsetur Suðurnesja. Verkefnastjóri: Hanna María Krisjánsdóttir.
Verkefnið felur í sér gerð fuglaskoðunarkorts fyrir Reykjanesskagann, ætlað ferðamönnum og áhugafólki um fuglaskoðun. Reykjanesskaginn er sérstaklega vænlegur til fuglaskoðunar og mikil þekking varðandi fuglalíf á svæðinu. Rannsóknir og gagnaöflun hefur staðið yfir árum saman hjá Náttúrustofu Suðurvesturlands.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Nr. 28. Sýnileiki UNESCO á Reykjanesi – Reykjanes Geopark. Verkefnastjóri: Eggert Sólberg Jónsson.
Fengist hefur leyfi til að nota merki UNESCO í markaðssetningu á svæðinu. Verkefnið gengur út á að auka sýnileika þessa merkis gagnvart aðilum í ferðaþjónustu, almenning á Suðurnesjum og ferðamönnum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Nr. 29. FlutningsVaki – Sjálfvirkt Gæðaeftirlit – Umsækjandi:  Tæknifræðinám Keilis. Verkefnastjóri: Andri Þorláksson.
Verkefnið snýr að hönnun og þróun á nýjum sjálvirkum búnaði sem skrásetur hvar, hvenær og hverskonar meðhöndlun varningur í flutningi verður fyrir.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Nr. 30. Nexis heilsueflingarkerfi (heilsugátt) – Umsækjandi: Nexis ehf. Verkefnastjóri: Jóhann Friðrik Friðriksson.
Verkefnið snýr að markaðssetningu heilsueflingarkerfis fyrir fyrirtæki og stofnanir á Íslandi ásamt tengdri þjónustu. Verkefnið byggir á fjölþjóðlegu samstarfi sérfræðinga á sviði lýðheilsu, sem hafa það að markmiði að efla heilbrigði meðal almennings.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Nr. 31. Þróun mengunarmiðstöðvar með áherslu á líffræðilega mælikvarða – rannsóknir og vöktun í eiturefnavistfræði – Umsækjand: Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum. Verkefnastjóri: Halldór Pálmar Halldórsson.
Verkefnið gengur út á þróun á nýtingamöguleikum, aðferðafærði og aðstöðu til rannsókna á sviði mengunarrannsókna, með áherslu á eiturefnavistfræði. Rannsóknaraðstaðan að Garðvegi 1 í Sandgerði er einstök á heimsælikvarða til rannsókna í eiturefnavistfræði. Það sem gerir aðstöðuna einstaka er annars vegar borholusjórinn sem dælt er bein inn í húsið ásamt afar fjölbreytilegu fuglalífi í nánasta nágrenni.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Nr. 32. Listasafn Reykjanesbæjar – tvær merkar sýningar – Umsækjandi: Listasafn Reykjanesbæjar. Verkefnastjóri: Valgerður Guðmundsdóttir.
Verkefnið sem flokkast undir Stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála lýtur að uppsetningu tveggja merkra sýninga sem settar verða upp á árinu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Nr. 33. Endurbygging Fischershúss 3. Áfangi -  Umsækjandi: Reykjanesbær. Verkefnastjóri:  Valgerður Guðmundsdóttir.
Verkefnið sem flokkast undir Stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála lýtur að endurbyggingu Fischershúss sem Waldimar Fischer byggði árið 1881.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.500.000 kr.

Nr. 34. Varðveisla Verbúðarinnar Bakka í Grindavík og umhverfis þess – Umsækjandi: Minja- og sögufélag Grindavíkur. Verkefnastjóri: Örn Sigurðsson.
Verkefnið sem flokkast undir Stofn- og rekstrarstyrki til menningarmála lýtur að uppbyggingu Verbúðarinnar Bakka.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.500.000 kr.

Nr. 35. Reykjanes Aurora – Umsækjandi: Rúnar Már Sigurvinsson sem er einnig verkefnastjóri.
Verkefnið lýtur að þróun og uppbyggingu í ferðaþjónustu á Reykjanesi. Verkefnið er til þess fallið að skapa svæðinu enn meiri sérstöðu en nú er, laða að fleiri ferðamenn og fjölga störfum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 3.500.000 kr.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024