Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

  • 45 milljónir í menntun á Suðurnesjum vegna WOW
    Nemandi í rafiðnaðardeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja. VF-mynd/MartaEiríksdóttir.
  • 45 milljónir í menntun á Suðurnesjum vegna WOW
    Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra kom til fundar við Suðurnesjamenn í kjölfar gjaldþrots WOW air.
Föstudagur 31. maí 2019 kl. 11:40

45 milljónir í menntun á Suðurnesjum vegna WOW

Samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í dag að veita 45 milljónum kr. til fyrri hluta aðgerðaráætlunar til að efla menntaúrræði á Suðurnesjum. Aðgerðirnar eru liður í viðbrögðum stjórnvalda við gjaldþroti flugfélagsins Wow Air í lok mars.

Í kjölfar fundar Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra með íbúum Suðurnesja í Reykjanesbæ 2. apríl var stofnaður starfshópur um málið innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Hlutverk hans var að móta aðgerðaáætlun er byggði á sýn heimamanna og stjórnvalda og vinna henni brautargengis ásamt því að vakta, greina og miðla upplýsingum um stöðu og þróun mála, með sérstakri áherslu á greiningu á aðstæðum þeirra hópa sem verst stæðu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmið aðgerðaáætlunarinnar er:

  • að aðgengi að námi á öllum skólastigum sé tryggt
  • að þjónustu við fólk með annað móðurmál en íslensku sé tryggð
  • að ekki verði fall í þátttöku barna og ungmenna í frístundastarfi, tónlistarnámi og íþróttastarfi
  • að sveigjanleiki verði til staðar til að mæta þeim íbúum svæðisins sem þurfa á félagslegri þjónustu, sálgæslu eða  náms- og starfsráðgjöf að halda
  • að sérstök áhersla verði lögð á að leysa úr athafnaleysi yfir sumarmánuðina m.a. með sumarstarfsemi menntastofnana á svæðinu.

Gott samráð er við fræðsluaðila á svæðinu, svo sem Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Keili, svo og Vinnumálastofnun sem hefur yfirsýn yfir þróun atvinnumála á svæðinu og samsetningu atvinnuleitenda. Teknar hafa verið saman verkefnahugmyndir þeirra sem nýst geta ólíkum hópum á svæðinu. Í fyrri hluta aðgerðaáætlunarinnar verður meðal annars áhersla á íþrótta- og æskulýðsstarf sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka, raunfærnimat með náms- og starfsráðgjöf og styttri námslínur og námskeið.

Í aðgerðahópi vegna þessa sitja Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Magnús Stefánsson bæjarstjóri Suðurnesjabæjar og Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum, auk fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins.