41 milljón gæti farið á 10 dögum
Húsagötur ekki snjóruddar eins og áður fyrr.
„Þetta kostar okkur eina til eina og hálfa milljón á dag þegar færðin er með versta móti. Við höldum í okkur eins og við getum og fylgjumst vel með veðurspánni svo að við séum ekki að moka þegar það á að rigna daginn eftir. Það kostar hálfa milljón bara að kalla út hreinsun á öllum aðalgöngustígum bæjarins,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar. Þar á bæ hafa íbúar bæjarins haft samband vegna þess að húsagötur hafa ekki verið ruddar. „Við höfum reynt að koma með tæki til að ryðja í burtu því sem safnast hefur fyrir eftir að stofnæðar hafa verið ruddar. Skipulagið er á þá leið að það gengur fyrir að ryðja leið fyrir strætó. Svo eru það leiðir að stofnunum bæjarins. Húsagötur eru einfaldlega ekki mokaðar eins og áður fyrr þegar allur snjór var hreinsaður út í sjó.
41 milljón í mokstur, söltun og sand
Guðlaugur segir að verktakar séu heldur ekki lengur með tækjaflota sem þeir voru með áður. „Þá tók ekki langan tíma að hreinsa bæinn. Við höfum öll okkar tæki úti þá daga þegar færðin er slæm, t.d. einn vörubíl með snjótönn sem ryður stofnæðarnar. Við settum að mig minnir 22 milljónir í snjómokstur og 19 í hálkuvörn (sem er salt og sandur). Sjóðurinn tæmist á tíu dögum ef þörf er á fullu snjómokstri.“ Ruðningur hefst alla jafna klukkan fjögur að nóttu og Guðlaugur segir að auðvitað væru hans menn til í að moka allt sem þarf hverju sinni. „Við verðum bara að vera skynsöm. Það er rosalegt fé sem bara hverfur ofan í sjó og synd að þurfa að eyða peningi í þetta. Mínir menn hjá þjónustumiðstöðinni eru búnir að vera í þessu í tugi ára, hoknir af reynslu og ég treysti þeim algjörlega til að taka réttar ákvarðanir.“
Hafnargata verður góð á Þorláksmessu
Umhverfis- og skipulagssvið tók sig til og hreinsaði Hafnargötu og Hringbraut því þar hefur verið mikil uppsöfnun af snjó. „Hafnargatan ætti að verða góð á Þorláksmessu þegar jólverslunin stendur sem hæst. Það spáir hægri norðanátt en það á ekki að vera mikil ofankoma,“ segir Guðlaugur sem einnig vill taka fram að allar aðreinar að fjölbýlishúsum á Ásbrú séu á vegum Háskólavalla. „Mikið hefur verið kvartað um að þær séu ekki mokaðar. En það er ekki á okkar vegum, ekki frekar en að öðrum blokkum. Það er á vegum hússjóða á hverjum stað. Ég hvet fólk eindregið til að kynna sér vetrarþjónustu Reykjanesbæjar.“