40% þeirra sem eru að byggja í nýjum hverfum Reykjanesbæjar koma frá höfuðborgarsvæðinu
Þrátt fyrir þær fréttir undanfarið um samdrátt á bygginga- og fasteignamarkaði, telur Steinþór Jónsson, formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar það ekki hafa haft teljandi áhrif á markaðinn hér syðra. Eftirspurn eftir lóðum sé enn mikil og það sé skylda bæjaryfirvalda að mæta henni eins og kostur er. Talsverð fólksfjölgun hefur orðið í Reykjanesbæ síðustu árin og ljóst er að margir höfuðborgarbúar eru farnir að sjá sér hag í að búa hér. Um 40% þeirra sem sótt hafa um lóðir í nýjum hverfum Reykjanesbæjar eru höfuðborgarbúar. Helst er það lægra lóða- og íbúðaverð sem vegur þyngst á metunum.
„Við teljum okkur bjóða upp á mjög fjölskylduvænt umhverfi hér í Reykjanesbæ. Hér eru styttri vegalengdir í alla þjónustu og yfirstandandi tvöföldun Reykjanesbrautar gerir það að verkum að það verður minna mál samgöngulega séð að sækja störf til höfuðborgarsvæðisins. Þannig ætti aðili sem nú stæði frammi fyrir því að geta komið sér upp þokklega stórri íbúð í nýju par-, eða raðhúsi í Reykjanesbæ á sama verði og eldri 3ja herbergja íbúð kostar í 101 Reykjavík að sjá kosti þess að flytja suður þar sem t.d. umferðarhnútar og bílastæðaskortur eru ekki til.“ segir Steinþór Jónsson.
Mörgum finnst nóg um þá hröðu uppbyggingu sem verið hefur í Reykjanesbæ og setja við hana ýmsar spurningar. Er þetta ávísun á offramboð á húsnæðismarkaði og er verið að fara of geyst? „Á meðan eftirspurn er eftir lóðum reynum við auðvitað að mæta henni. Ennþá er ekkert sem bendir til að hún sé neitt að minnka enda hefur verið mikil ásókn í lóðir í þeim hverfum sem þegar er búið að skipulegga og úthluta í. Við getum vitaskuld ekki sagt við byggingarverktaka eða einstakling að því miður geti hann ekki fengið lóð af því að við teljum að það sé búið byggja nóg í bili í bæjarfélaginu. Það er einfaldlega ekki hlutverk bæjaryfirvalda að stýra þessum markaði á þann hátt enda verður hann að fá að ráðast af eigin lögmálum og innsæi þeirra sem honum tilheyra. Okkar hlutverk er fyrst og fremst að sinna eftirspurninni með nægu lóðaframboði á meðan hún er til staðar. Því er ekki að neita að það lítur út fyrir að markaðurinn sé að leita jafnvægis eftir mikinn vöxt síðustu ára. Er því ekki betra að byggja hér í góðu bæjarfélagi þar sem lóðaverð er mikið lægra og fólk getur gert meira fyrir minni pening og þannig lækkað skuldir sínar umtalsvert án þess að minnka við sig í húsnæði?“ spyr Steinþór Jónsson.