40 feta gámur fauk í gegnum girðingu
Stormurinn sem gengur yfir sunnanvert landið hefur verið að færast í aukana og er nú að ná hámarki. Á Keflavíkurflugvelli mældist vindur 30 m/s kl. 12 og var að fara yfir 40 m/s í hviðum. Þar fauk 40 feta gámur í gegnum girðingu nú fyrir stundu og staðnæmdist aðeins örfáum metrum hjá röð af bílaleigubílum og mátti litlu muna að stórtjón hlytist af. Gámnum er þessa stundina haldið með stórvirkri vinnuvél.
Þá fauk stór tengivagn á hliðina og staðnæmdist við húsvegg hjá Icelandair Cargo.
Farið er að bera á foki í Reykjanesbæ og hefur Björgunarsveitin Suðurnes fengið 9 útköll s.s. vegna þakkants sem gaf sig og auglýsingaskiltis sem fór af stað.
Samkvæmt spá Veðurstofunnar mun draga úr vindi þegar líður á daginn.
Myndir: Frá Keflavíkurflugvelli nú fyrir stundu. Gámnum er haldið með stórri vinnuvél og tengivagninn á hliðinni.
Símamyndir: Hilmar Bragi.