35.000 tré gróðursett á Ásbrú
- nýtt átak í umhverfisendurbótum
Á næstu þremur árum verða gróðursett 20.000 tré innan íbúðabyggðarinnar á Ásbrú. Nemendur í 4. bekk Háaleitisskóla settu niður fyrstu trén með aðstoð stjórnar og starfsmanna Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, KADECO, á degi Íslenskrar náttúru sl. þriðjudag og marka þar með upphaf nýs kafla í umhverfisendurbótum fyrrum varnarsvæðisins.
Gróðursetningin er liður í þeim umfangsmiklu umhverfisendurbótum sem félagið hefur staðið fyrir frá árinu 2006 með rannsóknum, hreinsun og fegrun svæðisins.
15.000 tré gróðursett frá árinu 2011
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur á undanförnum þremur árum unnið að aukinni trjárækt á Ásbrú. Gróðursetningin hefur verið unnin í samstarfi við Reykjanesbæ og Skógræktarfélag Suðurnesja. Alls hafa, á þessum þremur árum, verið gróðursett yfir 15.000 tré flest í jaðri byggðar Ásbrúar meðfram Reykjanesbrautinni en einnig á svæðum innan Ásbrúar.
Gróðurmold búin til á Ásbrú
Á undanförnum árum hefur Reykjanesbær unnið að moltugerð á Ásbrú. Sú molta hefur verið notuð við gróðursetningu í Reykjanesbæ síðustu misseri. Í sumar var moltan m.a. notuð til þess að búa til gróðurmold þar sem hún er hörpuð saman við mold og sand af svæðinu. Gróðurmoldin var síðan notuð í beð sem búin voru til fyrir gróðursetninguna.
Liður í stærri heild
Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri KADECO, segir í samtali við Víkurfréttir að þetta verkefni sé liður í stærri heild sem líti að almennum umhverfisendurbótum á svæðinu. Umbreyting fyrrum herstöðvarinnar í borgaralegt samfélag sé eitt stærsta endurvinnsluverkefni Íslandssögunnar. Því skiptir miklu máli hvernig það er gert. Félagið hefur í störfum sínum meðal annars litið til þess að endurnýta byggingarefni sem fellur til við umbreytingar á húsnæði, staðið fyrir rannsóknum og hreinsun þar sem þess hefur þurft og unnið að fegrun umhverfisins á Ásbrú.
„Gróðursetning á trjám myndar ekki bara skjól heldur fegrar einnig umhverfið, gerir það hlýlegra og myndar umgjörð um það mannlíf sem byggst hefur upp á Ásbrú,“ segir Kjartan. Þegar hefur gróðursetning við Andrews menningarhúsið, Keilisbraut, golfvöllinn og innkomur Ásbrúar sett svip sinn á svæðið.
Myndarlegur hópur skólabarna úr 4. bekk Háaleitisskóla ásamt stjórn og starfsmönnum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. VF-myndir: Hilmar Bragi