Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

35.000 rútuferðir til og frá Bláa Lóninu á ári
Föstudagur 17. mars 2017 kl. 06:00

35.000 rútuferðir til og frá Bláa Lóninu á ári

- Telja gatnamót að Bláa Lóninu óásættanleg

Gerðar voru endurbætur á gatnamótum Grindavíkurvegar og Norðurljósavegar síðasta sumar. Vegagerðin hefur umsjón með veginum sem liggur frá Grindavíkurvegi að Bláa lóninu. Ekki er full sátt um breytingarnar um þessi fjölförnu gatnamót. Að sögn Kristínar Maríu Birgisdóttir, forseta bæjarstjórnar í Grindavík, höfðu bæjaryfirvöld lengi kallað eftir endurbótum á gatnamótunum og að jákvætt hafi verið að brugðist hafi verið við þeim. „Verra er þó að ekki var haft samráð við bæjaryfirvöld í Grindavík varðandi útfærslu breytinganna,“ segir hún.

Stýrihópur úr Grindavík, sem fulltrúar bæjaryfirvalda og atvinnulífsins skipa, átti fund með vegamálastjóra í síðustu viku þar sem rætt var um gatnamótin. „Við ræddum um þessar breytingar og að bæta þyrfti merkingar til að draga úr hraða ásamt því að breikka akrein til suðurs þannig að bílar færu ekki beint í veg fyrir umferðina á leið sinni til Grindavíkur. Þá er halli til hægri við þessi gatnamót sem þyrfti að gera lagfæringar á. Það er ríkur vilji hjá Vegagerðinni til að gera breytingar til bóta en þetta veltur alltaf á fjármagninu,“ segir Kristín María.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Magnea Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Bláa Lónsins, tekur í sama streng. „Við hjá Bláa Lóninu teljum þá breytingu sem gerð var á gatnamótunum ekki vera ásættanlega. Hringtorg hefði verið mun betri lausn, miðað við þá umferð og aðstæður sem eru á veginum. Það er ljóst að ástandið á veginum, eins og það er í dag, er með öllu óásættanlegt,“ segir Magnea.

Að jafnaði koma daglega um 48 rútur í Bláa Lónið. Samtals eru það 96 ferðir fram og til baka hvern dag og þá tæplega 35.000 ferðir á ári. Flestar rúturnar eru að jafnaði 18 tonn.  Þá hefur ferðum fólksbíla að Bláa Lóninu fjölgað í takt við fjölgun ferðamanna sem kjósa að leigja bílaleigubíla. Á síðasta ári var fjöldi heimsókna í Bláa Lónið 1.1 milljón. Starfsmenn Bláa Lónsins eru um 550 talsins og stendur til boða að taka ókeypis rútur til og frá vinnu. Hluti starfsmanna kemur á einkabílum.