33% sölustaða seldu unglingum tóbak
Þriðjungur sölustaða tóbaks á Suðurnesjum seldi unlingum undir 18 ára aldri tóbak í könnun sem Samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum gerðu nýlega.Könnunin var gerð einn föstudag síðla septembermánaðar og var farið á þrjátíu sölustaði frá kl. 15 til 17 á föstudagssíðdegi. Þrír starfsmenn félagsmiðstöðva og þrír unglingar úr 9. og 10 bekk af svæðinu framkvæmdu könnunina. Fyrirkomulagið var þannig að unglingur fór inn á sölustað og bað um að fá keyptan sígarettupakka. Beðið var um algengar tegundir og ef unglingurinn fékk tóbakið afgreitt greiddi hann fyrir það og fór út með pakkann. Þar tók starfsmaður við pakkanum og fór inn á sölustaðinn með unglingnum þar sem starfsmanni var greint frá því að verið væri að framkvæma könnun á sölu tókbaks til ungmenna undir 18 ára aldri. Farið var fram á það að fá að skila tóbakinu gegn endurgreiðslu og var það undantekningarlaust samþykkt á sölustöðum. Unglingarnir sem tóku þátt í könnuninni fóru ekki inn á sölustaði í sinni heimabyggð. Niðurstaða könnunarinnar sýnir að á meirihluta sölustaða á Suðurnesjum eiga unglingar erfitt með að fá keypt tóbak. Í sambærilegri könnun sem gerð var í mars sl. seldu tæplega 65% sölustaða unglingum tóbak.