32,7 milljónir króna til menningarmála
- Úthlutun styrkja Menningarráðs Suðurnesja 2013
Menningarráð Suðurnesja hefur nú úthlutað styrkjum í síðasta sinn samkvæmt. samningi sem undirritaður var í Ráðherrabústaðnum 15.4.2011. Breyting verður á vinnubrögðum og rennur nú fjármagn til menningarmála eftir einum farvegi og byggir á Sóknaráætlun hvers landshluta fyrir sig. En eins og við lok undangenginna menningarsamninga var menningarráðstefnan „Menningarlandið“ haldin á Kirkjubæjarklaustri daganna 11 og 12 apríl. Að ráðstefnunni stóðu mennta- og menningarmálaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og menningarráð Suðurlands í samstarfi við önnur menningarráð landsbyggðarinnar. Formaður Menningarráðs Suðurnesja ásamt verkefnastjóra sóttu ráðstefnuna sem var mjög áhugaverð í alla staði. Leitast var við að svara spurningum eins og hvers virði er öflugt menningarstarf fyrir samfélagið? Hver er reynslan af menningarsamningunum ? Hafa upphafleg markmið sem lágu að baki samningunum náðst. Hvaða áhrif hafa breytingar í tengslum við sóknaráæltanir landshluta á menningarsamninga og starfsemi menningarráða ? Hvernig er hægt að tryggja að úthlutun opinberra fjármuna til lista- og menningartengdra verkefna sé faglega unnin?
Mengin tilgangur ráðstefnunnar var að ræða framkvæmd og framtíð menningarsamninga ríkis og sveitarfélaga, sem og samstarf ríkis og sveitarfélaga við menningarráðin. Menningarsamningarnir renna allir út á þessu ári og því nauðsynlegt að meta reynsluna af þeim til að geta gert áætlanir um framhaldið m.a. með tilliti til sóknaráætlana landshluta.
Það má segja að niðurstaða Menningarlandsins hafi verið að það beri að halda menningarsamningunum áfram og samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Samningarnir hafi styrkt menningarlífið á landsbyggðinni og eflt menningartengda ferðaþjónustu.
Hér á Suðurnesjum varð samdráttur í umsóknum til Menningarráðs eftir hrun. En núna virðist sem umsóknum sé aftur að fjölga og verkefnin sem sótt er um fyrir er mun fjölbreytilegri en oft áður.
Sótt var um styrki fyrir 70 verkefni samtals og hljóðuðu umsóknirnar upp á tæpar 94 milljónir króna. Til úthlutunar voru 18 milljónir króna til verkefnastyrkja og 9 milljónir króna til stofn- og rekstrarstyrkja. Að þessu sinni hlutu 36 verkefni styrki.
Eftirfarandi verkefni hljóta styrki í maí 2013
1.500.000 Klassísk ballettverk fyrir áhorfendur á öllum aldri. Bryn Ballett Akadimían ehf
Valin atriði úr tveimur klassískum ballettverkum við tónlist eftir Tchaikovsky „Svanavatnið“ og „hnotubrjóturinn“. Þrjár sýningar settar upp í apríl 2014 í menningarhúsi Andrews á Ásbrú.
1.500.000 UPPSPRETTA
Verkefnið er á vegum Toyista (toyism). Stefnt er að því að veita vatnstankinum við Vatnsholt í Reykjanesbæ andlistlyftingu sem mun sóma svæðinu vel. Þemað verður, uppspretta/orkugjafi. Hópurinn hefur skreytt mannvirki með góðum árangri í Hollandi.
1.500.000 Ferskir Vindar í Garði.
Verkefnið er samfélagslegt menningarverkefni sem vekur athygli á Suðurnesjum og laðar að fjölda fólks. Hátíðin hefur hlotið verðskuldaða athygli, innanlands sem utan. Opnunarhátíðiin verður 18. Janúar 2014.
1.000.000 2 Tótar.
Verkefnið er lítil falleg saga um það hversu sárt það er að missa vin. Frásagnarhátturinn er dálítið táknrænn því að fólk er oft með grímur til að leyna því hvernig því líður. Þá sérstaklega þeir sem eru þunglyndir. Í verkinu eru þeir trúðar og eru því bókstaflega með grímur allan tíman.
1.000.000 Saga slökkviliða á Íslandi. Áhugasamtök um sögu slökkviliða.
Safnið mun segja sögu slökkviliða á Íslandi sem nær yfir 100 ár. Safnið verður staðsett í Rammahúsinu í Reykjanesbæ. Safnið var vígt 13. apríl sl. í tilefni 100 ára afmælis Slökkviliðs Keflavíkur, síðar Brunavarna Suðurnesja.
1.000.000 Keflavík Music Festival 5. til 9. Júní 2013.
Verkefnið er árleg tónlistarhátíð í Reykjanesbæ þar sem rjóminn af innlendum og erlendum tónlistarmönnum koma fram.
900.000 Með blik í augum III.
Verkefnið er tónlistarverkefni sem flutt verður á fernum tónleikum á Ljósanótt 2013. Gert er ráð fyrir að 30-40 einstaklingar komi að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Þetta verkefni er einn af stærri viðburðum Ljósanætur og veitir listafólki af Suðurnesjum tækifæri til þess að taka átt í metnaðarfullri sýningu þar sem hvergi er slegið af í kröfum
800.000 List án landamæra á Suðurnesjum.
Verkefnið er hátíð fjölbreytileikans þar sem horft er á tækifæri en ekki takmarkanir. List án landamæra vill koma list fólks með fötlun á framfæri og koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. Verkefnið er sameiginlegt verkefni sveitarfélaga á Suðurnesjum.
800.000 Safnahelgi á Suðurnesjum.
Er sameiginleg kynning sveitarfélaganna á þeim söfnum, setrum og sýningum sem eru í boði á Suðurnesjum utan hefðbundins ferðamannatíma.
750.000 Jesus christ Superstar í kirkjum á Suðurnesjum.
Uppsetning þess á Jesus Christ Superstar byggir á sígildu formi óratoríunnar þar sem Bíblíufrásögn er flutt í söng og lesnu máli. Sjö manna hljómsveit leikur, fimmtíu kórfélagar syngja og valinn hópur einsöngvara flytur hin þekktu verk.
750.000 Óperuhátíð í Reykjanesbæ. Verdi & Wagner 200 ára.
Tvö af virtustu óperutónskáldum allra tíma eiga báðir 200 ára afmæli á árinu. Því telur Norðuróp við hæfi að halda glæsilega stórtónleika þeim til heiðurs.
650.000 Merkingar áhugaverðra staða innan Reykjanes jarðvangs.
Verkefnið er að hanna og setja upp upplýsinga- og fræðsluskilti innan Reykjanes jarðvangs. Skiltunum verður komið fyrir í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum.
600.000 Bryggjumenning í Grindavík 2013. Bryggjan kaffihús.
Verkefnið er tvæþætt. Annars vegar útgerðar- og sjómannasýning með munum og myndum í kaffihúsinu. Hins vegar lifandi viðburðir á „Bryggjunni“ bæði í töluðu máli og með tónlist.
500.000 Nýtt kynningarefni fyrir Víkingaheima á fjórum tungumálum.
Í Víkingaheimum eru fimm sýningar sem þarf að kynna og a.m.k. þrjár þeirra alveg frá grunni. Textar allra sýninganna fimm verða þýddir á fjögur tungumál.
500.000 Listahátíð barna vorið 2014.
Listahátíðin er samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskóla bæjarins og allra 5 grunnskólanna. Á listahátíðinni má sjá afrakstur þess frábæra starfs sem unnið er í skólum Reykjanesbæjar í skapandi greinum og með samstarfi við Listasafnið er sköpuð fagleg umgjörð sem hæfir slíku starfi.
500.000 SAMSPIL – Færeysk og íslensk mynd- og tónlist á Suðurnesjum og Þórshöfn í Færeyjum.
Verkefnið lýtur að kynningu á verkum fjögurra listamanna frá Færeyjum og íslandi, myndlistamanna og tónlistamanna. Samsýning á þremur stöðum, í Þórhöfn, Reykjanesbæ og Grindavík.
500.000 Upplýsinga- og fræðsluskilti í Vogum. Hilmar Egill.
Verkefnið lýtur að fjórum upplýsingaskiltum tengdum sögu og menningu í sveitarfélaginu Vogum. Skiltin eru ætluð til fræðslu jafnt fyrir heimamenn sem ferðafólk. Skiltin verða á tveimur tungumálum.
500.000 Kynningarmyndband fyrir rannsóknir og skoðun náttúrufyrirbæra á Reykjanesi. Geocamp Iceland.
Kynningarmyndband um Reykjanesið þar sem höfðað er til erlendra ferðamanna með sérstakan áhuga á jarð- og náttúruvísindum og þar sem gerð er sérstök grein fyrir áhugaverðum stöðum á Reykjanesi til rannsókna og verkefnavinnu með raunverulegum dæmum og fyrirmyndum.
500.000 Söngleikurinn Grease.
Uppsetning á söngleiknum Grease fyrir nemendur á grunnskólaaldri á Suðurnesjum. Söngleikurinn verður settur upp í Frumleikhúsinu í september og gefst nemendum í 8 til 10 bekk kostur á að taka þátt.
500.000 Saga Vatnsleysustrandarhrepps og sveitarfélagsins Voga vaknar á vefnum.
Verkefnið lýtur að söfnun efnis um sögu sveitarfélagsins frá landnámi til nútíma í bókum, greinum, skjölum, ljósmyndum og kvikmyndum. Efnið verður sett upp sem aðlaðandi og aðgengilegur vefur.
400.000 Leiðsögn um tökustaði íslenskra kvikmynda á Suðurnesjum.
Verkefnið lýtur að því að safna saman og gefa út upplýsingar um kvikmyndatökustaði íslenskra kvikmynda á Suðurnesjum. Upplýsingarnar verða gefnar út á prentuðu korti og sem smáforrit. Leiðsögnin gefur fólki tækifæri að upplifa Suðurnes á annan hátt en áður þekkist, í gegnum heim íslenskra kvikmynda.
300.000 Kynning á bókmenntaarfinum.
Almenningsbókasöfnin á Suðurnesjum hafa á undanförnum árum haft samstarf um menningarviðburði þar sem bókmenntir, rithöfundar og skáld hafa verið kynnt.
250.000 Skúlptúra.
Skúlptúra er samvinnuverkefni leikskólabarna í Heilsuleikskólanum króki og myndhöggvarans Önnu Sigríðar Sigurjónsdóttur í skúlptúrgerð með efnivið úr náttúruinni
200.000 Íbúð kanans
Sýningin íbúð kanans er ætlað að gefa innsýn í hversdagslíf bandaríska hermanna á Íslandi og skoða jafnframt hvaða áhrif þeir höfðu á menningu þeirra sem bjuggu hinum megin við hliðið og öfugt.
200.000 Ljóðatónleikar í Stapa í október vegna 70 ára afmælis tónskáldsins, Eiríks Árna Sigtryggssonar.
20 ný sönglög verða frumflutt. Tónleikarnir verða endahnútur á löngu ferli tónsmíða og æfinga.
200.000 Heimskautin heilla á ensku
Hin glæsilega sýning Heimskautin heilla var opnuð árið 2007 í húsnæði Þekkingarseturs Suðurnesja. Sýningin fjallar um líf og störf franska læknisins og heimskautafarans Jean-Baptiste Charcot og vekur sérstaka athygli vegna skemmtilegrar og vandaðrar uppsetningar, en umgjörðin líkist því að ganga um boð í skip.
200.000 Hafið bláa hafið. Stóru-Vogaskóli.
Verkefnið er samstarfsverkefni Stóru Vogaskóla, leikskólans Suðurvalla og menningarmiðstöðvarinnar Hlöðunnar. Verkefninu er ætlað að styrkja tengsl grunnskóla og leikskóla og tengsl barnanna við menningarlíf í bæjum sínum.
Eftirfarandi verkefni hljóta stofn- og rekstrarstyrkir í maí 2013.
2.000.000 Fischershús, endurgerð.
Fischershús er eitt af merkustu húsum bæjarins, byggt 1881 og kom tilsniðið frá Danmörku. Þetta þótti á sínum tíma eitt glæsilegasta hús landsins og er merkilegt á landsvísu. Mikil ábyrgð er hjá Suðurnsejamönnum að endurgera það á sem uppraunalegastan hátt.
2.000.000 Endurgerð Bryggjuhúss Duushúsa.
Unnið hefur verið við endurgerð Duushúsanna síðan árið 2002 og nú er svo komið að aðeins á eftir að ljúka fjórða áfanga, Bryggjuhúsinu að innan. Húsið var byggt 1877 og er eitt stærsta pakkhús sinnar tegundar á Íslandi og því menningarsöugulega verðmætt fyrir alla þjóðina.
1.000.000 Rekstur sýninga hjá Þekkingarsetri Suðurnesja.
Tvær sýningar eru í húsi Þekkingarsetursins sem setrið rekur en eru í eigu Sandgerðisbæjar. Báðar sýningarnar eru opnar alla virka daga og um helgar yfir sumartímann.
1.000.000 Listasafn Reykjanesbæjar.
Listasafn Reykjanesbæjar er eina listasafnið á Suðurnesjum og hefur sem slíkt ákveðnum skyldum að gegna og starfar eftir safnalögum. Setta eru upp a.m.k. 6 sýningar á ári.
800.000 Bátasafn Gríms Karlssonar.
Bátasafnið átti 10 ára afmæli í fyrra. Af því tilefni voru keypt 20 líkön af Grími sem þarf að koma í sýningarkassa. Fjöldi báta í safninu er nú orðinn 130 talsins.
700.000 Sjólyst í Gerðum – Minjasafn og fræðasetur.
Í Sjólyst bjó hin landsfræga Una Guðmundsdóttir eða Völva Suðurnesja. Hugmyndin er að koma húsinu Sjólyst í upprunalegt horf.
600.000 Nýsköpun og viðhald á tónlistarlegri menningararfleifð Suðurnesja. Geimsteinn ehf.
Geimsteinn er elsta starfandi hljómplötuútgáfa á Íslandi og hefur haldið merkjum Suðurnesjamanna á lofti frá 1976. Samhliða hefur verið rekið safn um okkar dáðasta tónlistarmann, Rúnar Júlíusson, frá árinu 2009 sem er orðinn ómissandi hlekkur í ferðaþjónustunni á Suðurnesjaum.
500.000 Rekstur myndasafns. Byggðasafn Reykjanesbæjar.
Vefvæðing myndasafnsins hófst á síðasta ári þá náðist góður árangur, við áramót var búið að skanna inn 8483 myndir og tengja þær við safnskrá.
400.000 Efra Sandgerði – varðveisla og endurbygging á elsta húsi í Sandgerði.
Húsið er byggt árið 1883 af Sveinbirni Þórðarsyni útvegsbónda, er húsið því 130 ára gamalt. Lionsklúbburinn í Sandgerði hefur farið fyrir endurbyggingunni.
Samtals 27 styrkir til verkefna að fjárhæð kr. 18.000.000.
Samtals 9 stofn og rekstrarstyrkir að fjárhæð kr. 9.000.000.
Veittir styrkir kr. 32.700.000.