300 TONNA SKIP Á LEIÐ Í SMÁBÁTAHÖFNINA
Eitthvað varð skipstjóra norsku línugaleiðunnar Skarheim frá Aalesund fótaskortur á sjókortunum þegar hann var á leið til hafnar í Keflavík undir kvöld á þriðjudaginn. Karlarnir í smábátahöfninni ráku upp stór augu þegar þeir sáu skipið koma askvaðandi inn Stakksfjörðinn og inn á Keflavíkina. Ekkert talstöðvarsamband náðist við skipið og þurfti hafnarvörður að hringja í gegnum Noreg til að ná sambandi um borð. Að sögn sjónarvotta átti skipið ekki margar „skipslengdir“ eftir í land þegar það snéri við í fylgd Byrs GK sem vísaði skipstjóranum réttu leiðina til Keflavíkurhafnar.Pétur Jóhannsson hafnarstjóri í Keflavík sagði í samtali við VF að skipstjórinn hafi treyst á sjókort sín, enda á leið til Keflavíkur og sigldi því beint inn á þá vík þegar hann kom að bænum.Skipið er að halda á línuveiðar við Grænland en kom við í Keflavík til að sækja varahluti og veiðarfæri.