30 nýjar íbúðir byggðar
Undirbúningur er nú í fullum gangi fyrir nýja 30 íbúða byggð í Vogum. Húsin verða úr timbureiningum á steyptum grunni, en verktaki er SP hönnun og húseiningar hf. Húsin eru byggð á vegum húsnæðissamvinnufélagsins Búmenn og ætluð fólki sem er 50 ára og eldra. Gert er ráð fyrir að fyrstu húsin geti verið tilbúin innan árs. Þau verða á einni hæð en mismunandi að stærð, þau minnstu 84 fm og þau stærstu 120 fm.Talsvert er í hönnun húsanna lagt, en þau hannar Guðmundur Jónsson arkitekt í Ósló. Guðmundur vill breyta frá hinu lágreista risþaki, sem hann segir að hafi einkennt einingahúsin um of. Þetta má gera á þann veg, að þakinu er misskotið, þannig að annar hluti þaksins er hærri en hinn. Öll húsin eiga líka að fá sitt sérstaka yfirbragð, þannig að þau verði frábrugðin hvert öðru þó að þau séu byggð á sama hátt.„Okkur finnst Vogar afar áhugaverður staður“, sagði Reynir Ingibjartsson framkvæmdastjóri Búmanna í samtali við Morgunblaðið. „Vogar eru skammt frá höfuðborgarsvæðinu, hafa „sjarma“ íslensku sjávarbyggðanna og henta vel fólki sem komið er yfir miðjan aldur.“