30 milljóna kr. Benz SLR tekur flugið!
Starfsmenn í hlaðþjónustunni á Keflavíkurflugvelli eru ýmsu vanir þegar kemur að því að flytja frakt til og frá landinu. Annað slagið koma þó og fara hlutir sem hægt er að dást að. Í kvöld voru tveir glæsilegir sportbílar settir um borð í flutningavél Icelandair Cargo á Keflavíkurflugvelli. Annar bíllinn var nýr Peugeot sportbíll sem var vel innpakkaður í kassa og fór mjög leynt. Hinn bíllinn var þessi Mercedes-Benz SLR, sem metinn er á um 30 milljónir króna.Benzinn var eingöngu undir léttri dulu og ekki sami felugripurinn og Peugeot bifreiðin. Hlaðmennirnir urðu meira að segja að svipta af honum dulunni til að sjá hvar þeir gætu tekið á bílnum, þar sem hann stóð vel útfyrir flutningspallinn sem hann var á og plássið sem bíllinn þurfti að komast um var lítið. Það má ekki koma hnjask á svona tryllitæki, sem er með V8 vél undir vélarhlífinni og skilar hátt í 600 hestöflum.
Þessi Benz SLR er sagður einn sögufrægasti bíllinn sem Benz hefur framleitt, byggður á Silfurörinni, sem er frægur keppnisbíll. Löng vélarhlífin og risastór loftinntök eru einkennismerki fyrir bílinn og hurðirnar opnast eins og vængur á fugli. Bíllinn verður framleiddur í verksmiðjum McLaren.
Meðfylgjandi mynd tók Hilmar Bragi á Keflavíkurflugvelli í kvöld.
Þessi Benz SLR er sagður einn sögufrægasti bíllinn sem Benz hefur framleitt, byggður á Silfurörinni, sem er frægur keppnisbíll. Löng vélarhlífin og risastór loftinntök eru einkennismerki fyrir bílinn og hurðirnar opnast eins og vængur á fugli. Bíllinn verður framleiddur í verksmiðjum McLaren.
Meðfylgjandi mynd tók Hilmar Bragi á Keflavíkurflugvelli í kvöld.