30% aukning í sjúkraflutningum á Suðurnesjum
Brunavarnir Suðurnesja sinntu alls 4.154 sjúkraflutningum á Suðurnesjum á síðasta ári. Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja segir aukningu milli ára vera 30%. Ekki er búið að greina að fullu hvar aukningin liggur.
Fjöldi sjúkraflutninga vekur þó athygli út frá því að mun minni umferð hefur verið um Keflavíkurflugvöll. Sjúkraflutningar tengdir fluginu hafa verið 12% af sjúkraflutningum á Suðurnesjum síðustu ár en voru 6% í fyrra. Útköll slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja voru um 200 á síðasta ári, sem er svipaður fjöldi og síðustu ár.