28 íbúðir ÍLS auglýstar til leigu í janúar
„Auglýstar voru 40 af þessum íbúðum til leigu og í dag eru nánast allar þeirra leigðar út. 28 íbúðir til viðbótar verða auglýstar til leigu í byrjun janúar 2014. Þá auglýsti Íbúðalánasjóður um 135 eignir til almennrar leigu á Suðurnesjum á árinu 2013 og við þær bætast þessar 28 eignir. Alls er Íbúðalánasjóður með um 380 eignir í leigu á Suðurnesjum,“ segir Ágúst Kr. Björnsson, sviðsstjóri á eignasviði hjá Íbúðalánasjóði.
Verktakar af Suðurnesjum
Spurður um sölu eigna á Suðurnesjum og hvernig sjóðurinn bauð út standsetningu eigna til að koma þeim í leigu, segir Ágúst að Íbúðalánasjóður hafi boðið út lagfæringar á 60 eignum til útleigu. „Verkefnið var boðið út í samvinnu við Ríkiskaup og voru tilboð opnuð 4. október. Níu verktakar buðu í verkið og voru sex þeirra af Suðurnesjum. Verkefninu var skipt á milli fjögurra verktaka og var samið við Spons sf, ÍAV þjónustu, Bergraf ehf og TSA ehf. Þessi fyrirtæki eru öll af Suðurnesjum,“ segir Ágúst.
Síðar hafi 10 eignum verið bætt við og alls 70 eignir lagfærðar til útleigu í þessum áfanga. Miðað er við að varið sé einni og hálfri milljón í viðhald og lægfæringar á hverri íbúð til að koma þeim í leiguhæft stand. „Verkefnið gekk mjög vel og var ánægja með þessa verktaka um framkvæmd þess. Þeir stóðu sig allir með miklum ágætum,“ segir Ágúst.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði í samtali við Víkurfréttir í nóvember að í lok þess mánaðar yrði stefnt að því að allar leiguhæfar eignir Íbúðalánasjóðs fari í útleigu í Reykjanesbæ. Jafnframt sagðist hún hafa upplýsingar um að um 150 eignir sjóðsins á Suðurnesjum væru á söluskrá og að um 100 eignum yrði bætt við á allra næstu vikum.
VF/Olga Björt