Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

272 milljónir í útgjöld umfram tekjur vegna Vallarheiði
Miðvikudagur 5. nóvember 2008 kl. 12:53

272 milljónir í útgjöld umfram tekjur vegna Vallarheiði



Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi A-lista í Reykjanesbæ, segir það umhugsunarvert að ekki virðast hafa verið til neinar áætlanir um á hvaða hátt svæðið á Vallarheiði byggðist upp, þ.e. til hvaða útgjalda yrði stofnað af sveitarfélaginu vegna svæðisins og af hvaða stærðargráðu þau yrðu.

Útgjöld Reykjanesbæjar vegna Vallarheiði nema 449 milljónum króna á þessu ári samkvæmt áætlun. Heildartekjur á móti eru 177,2 milljónir. Gjöld umfram tekjur eru því 272 milljónir, samkvæmt svari meirrihlutans við fyrirspurn Guðbrands.

„Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar virðast því bara hafa opnað gáttina án þess að gera sér á nokkurn hátt grein fyrir þeim kostnaði sem til félli á sveitarfélagið. En það eru auðvitað engin nýmæli að þannig sé staðið að málum af þeirra hálfu,“ segir Guðbrandur í bókun sem hann lagði fram á bæjarstjórnarfundi í gær vegna málsins.

„Það hlýtur að vera réttmæt krafa á þessum tímapunkti að fram verði lögð áætlun um á hvaða hátt áframhaldandi uppbygging muni eiga sér stað á þessu svæði. Getum við gert ráð fyrir því að svæðið muni auka útgjöld Reykjanesbæjar um nokkur hundruð milljónir á ári án þess að tekjur fáist á móti? Mun þetta svæði halda áfram að vaxa eitthvað í líkingu við það sem við höfum séð hingað til með tilheyrandi útgjaldaauka fyrir Reykjanesbæ? Gæti þetta svæði orðið samvinnuverkefni fleiri aðila eða ætla sjálfstæðismenn sér bara að reka það á kostnað annarra íbúa Reykjanesbæjar,“ spyr Guðbrandur ennfremur í bókuninni. Hann tekur  fram að uppbyggingin á Vallarheiði sé á margan hátt jákvæð og framsækin og geti til lengri tíma litið haft mikil á jákvæð áhrif ef rétt sé á málum haldið.

„Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafna alfarið þeirri skoðun sem fram kemur í bókun Guðbrandar Einarssonar um að ekki virðist hafa verið til neinar áætlanir um rekstur svæðisins á Vallarheiði. Vallarheiði er hluti af Reykjanesbæ og áætlanir sveitarfélagsins taka einnig til Vallarheiðar. Stefna Sjálfstæðismanna er að veita sömu þjónustu þar sem og annars staðar í sveitarfélaginu. Þá er rétt að benda bæjarfulltrúanum á að fjölgun íbúa leiðir til aukinnar starfsemi fyrirtækja innan sveitarfélagsins, m.a. verslunar- og þjónustu. Sjálfstæðismenn lýsa vanþóknun sinni á því sjónarmiði sem fram kemur í bókuninni að kostnaður við íbúa Reykjanesbæjar á Vallarheiði sé á kostnað annarra bæjarbúa Reykjanesbæjar. Sjálfstæðismenn draga íbúa Reykjanesbæjar ekki í dilka með þeim hætti,“ segir í bókun sem sjálfstæðismenn lögðu fram eftir fundarhlé sem þeir fóru fram á í kjölfar bókunar Guðbrands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024