260 farþegar bíða eftir flugi
Verulegar tafir eru á flugi Icelandair til San Fransisco en um 260 farþegar bíða nú eftir því að gert sé við vélina sem átti að fljúga með þá út. Í San Fransisco bíða 270 farþegar eftir flugi til Íslands. Að sögn Icelandair þá varð bilun í þeirri vél sem fljúga átti til San Fransisco.
Í samtali Stöðvar 2 við Guðjón Arngrímsson, upplýsingastjóra Icelandair, kom fram að nauðsynlegt hafi reynst að fljúga með varahluti til landsins og því hafi töfin orðið lengri en búist var við. Rætt var við nokkra af farþegunum í fréttatíma Stöðvar 2 og voru nokkrir ósáttir við þær upplýsingar sem þeir fengu varðandi töfina.
Búist er við því að frekari tafir verði á flugi á morgun.