25 félagslegar leiguíbúðir tilbúnar árið 2002
Ákveðið hefur verið að byggja 25 félagslegar leiguíbúðir fyrir eldri borgara í Reykjanesbæ við Kirkjuveg 5. Umsóknir um 38 átta íbúðir liggja fyrir í dag en gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði tilbúnar fyrripart ársins 2002.Bæjarstjóri hefur skipað starfshóp vegna framkvæmdanna. Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri, er formaður hópsins en í honum eru einnig Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari og Stefán Bjarkason, íþrótta- og tómstundafulltrúi. Starfsmaður hópsins er Sigurbjörg Gísladóttir, húsnæðisfulltrúi.Starfshópurinn á helst að skila tillögum til bæjarstjóra fyrir lok október, varðandi hvernig staðið verður að hönnun hússins, úboði og framkvæmdum.Að sögn Hjördísar Árnadóttur verða íbúðirnar byggðar á þann hátt að leigan verði sem hagstæðust fyrir íbúa. „Við erum með langa biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum og stór hluti umsækjenda eru ekkjur. Óskað var eftir að byggja þetta hús með hliðsjón að þeim biðlista þannig að ég á ekki von á öðru en að íbúðirnar fari um leið og þær verða auglýstar. Málið er á algjöru frumstigi þannig að við erum ekki farin að taka við umsóknum ennþá“, sagði Hjördís.Bæjarstjórn samþykkti á sínum tíma að sækja um lán til Íbúðalánasjóðs, til að byggja 25 félagslegar leiguíbúðir fyrir eldri borgara. „Við fengum heimild fyrir 6 lánum með 1% vöxtum og síðar fengum við 19 lán til viðbótar með 3,9% vöxtum“, sagði Ellert Eiríksson, bæjarstjóri en stefnt er að því að lánið sé til greiðslu á árinu 2002.Reykjanesbær hefur keypt hús á lóðinni Kirkjuvegur 7 en á næstunni verður farið í samningaviðræður við eigendur húss númer þrjú við Kirkjuveg, því það þarf að víkja fyrir nýja húsinu.