Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

  • 24 jarðskjálftamælum komið fyrir á hafsbotni
    Jarðskjálftamælum komið fyrir í sjónum við Reykjanes í ágúst sl.
  • 24 jarðskjálftamælum komið fyrir á hafsbotni
    Unnið varið jarðskjálftamæli á Reykjanesi.
Mánudagur 22. september 2014 kl. 12:08

24 jarðskjálftamælum komið fyrir á hafsbotni

– umhverfis Reykjanes og 30 mælar á landi

Hópur jarðvísindamanna, bæði frá ÍSOR og jarðvísindastofnuninni GFZ (GeoForschungZentrum) í Þýskalandi, vann á dögunum við að koma fyrir 24 jarðskjálftamælum á hafsbotni umhverfis Reykjanes í samvinnu við HS Orku. Tilgangurinn er í vísindaskyni, að þróa nýjar aðferðir til að rannsaka jarðhitakerfi. Þetta er einn verkþáttur í fjölþjóðlegu evrópsku verkefni, IMAGE (Integrated Methods for Advanced Geothermal Exploration).

Jarðskjálftamælunum var komið fyrir á um 50–200 m dýpi. Leitað var eftir samstarfi við útgerðir og skipstjóra við ákvörðunartöku um staðsetningar á mælunum (sjá meðfylgjandi kort). Sjófarendur eru sérstaklega beðnir um að veita staðsetningum mælanna athygli í von um að hægt sé að forða þeim frá því að lenda í veiðarfærum skipa. Hver mælir vegur um 500 kg og gæti því auðveldlega valdið skaða á veiðarfærum. Mælarnir koma frá þýskum tækjabanka, Alfred Wegener Institute í Bremen.

Þéttriðið jarðskjálftamælanet er nú á Reykjanesskaganum. Auk þeirra 24 mæla sem liggja nú á hafsbotninum var í sumar komið fyrir 30 mælum á landi sem hluti af þessu verkefni. Mælunum er ætlað að safna jarðskjálftagögnum í eitt ár. Einnig munu sérfræðingarnir hafa aðgang að gögnum frá jarðskjálftamælum sem fyrir eru á skaganum. ÍSOR hefur undanfarin tvö ár komið fyrir níu jarðskjálftamælum á vinnslusvæði HS Orku. Veðurstofa Íslands rekur sjö mæla og tékkneskir sérfræðingar hafa að auki komið niður 14 mælum. Allt í allt eru þetta 84 mælar sem munu gefa upplýsingar sem nýttar verða í verkefninu.

Verkefnið er eitt yfirgripsmesta samstarfsverkefni sem ÍSOR hefur tekið þátt í. Það er styrkt af 7. rammaáætlun Evrópusambandsins og er heildarstyrkurinn um 10,1 milljón evra. Þar af er styrkupphæð til Íslands um 1,7 milljónir evra. Verkefnisstjórn heildarverksins er í höndum hollensku jarðfræðistofnunarinnar TNO. Verkinu er skipt í tvo meginþætti, annars vegar þróun aðferða við jarðhitarannsóknir í gosbergi og hins vegar í setbergi. Sá fyrrnefndi er meira en helmingur heildarverksins og er Gylfi Páll Hersir, jarðeðlisfræðingur hjá ÍSOR, verkefnisstjóri þess hluta.

Alls eru 19 þátttakendur í verkefninu, þar af þrír frá Íslandi; ÍSOR, HS Orka og Landsvirkjun. Vísindastofnanirnar eru 11: TNO - Holland (yfirverkefnisstjórn), ÍSOR - Ísland, BRGM - Frakkland, CNR - Ítalía, ETHZ - Sviss, GFZ - Þýskaland, IFE - Noregur, UniBari - Ítalía, TU Darmstadt - Þýskaland, Universite Montpellier - Frakkland og VBPR - Noregur. Átta jarðhitaiðnfyrirtæki koma að verkefninu: AXPO - Sviss, ENEL - Ítalía, Fonroche Géothermie - Frakkland, Geomidia - Tékkland, HS Orka - Ísland, Landsvirkjun - Ísland, Petratherm - Spánn og Sol-E-Suisse - Sviss.

Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins er að þróa nýjar aðferðir til að rannsaka og meta jarðhitakerfi í gosbergi. Reykjanesið, Krafla og Geitafell við Hornafjörð verða athugunarsvæðin hér á landi og hliðstæð svæði erlendis eru jarðhitasvæðin Larderello og eyjan Elba á Ítlalíu og Tenerife, Kanaríeyjum. Vonir standa til að hægt verði að gefa sem besta mynd af jarðhitakerfum og fá upplýsingar úr dýpri jarðlögum en nú eru fyrir hendi. Þetta gætti leitt til þess að staðsetning borholna yrði markvissari og árangursríkari.

Það er geysimikill ávinningur fyrir jarðhitarannsóknir á Íslandi að fá þetta verkefni, segir á vef ÍSOR, íslenskra orkurannsókna. Auk þess sem það veitir íslenskum jarðhitavísindamönnum tækifæri til rannsóknarvinnu í samstarfi við ýmsar helstu rannsóknarstofnanir á sviði jarðhita í heiminum þá er heilmikil vinna og fjármunir erlendu samstarfsaðilanna vegna verkefna sem unnin verða á Íslandi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024