22% verslana brutu lög um tóbaksvarnir
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kannaði nýverið hvernig ákvæðum um tóbaksvarnir um bann við sölu á tóbaki til unglinga yngri en 18 ára er framfylgt í verslunum á svæðinu. Könnunin fór þannig fram að einstaklingar undir 18 ára aldri fóru í verslanir og gerðu tilraunir til kaupa á tóbaki. Í kjölfarið komu starfsmenn embættisins og tilkynntu um könnunina og niðurstöðu hennar í viðkomandi verslun. Könnuð var sala á 32 útsölustöðum sem hlotið hafa leyfi heilbrigðisnefndar til tóbakssölu. Alls seldu 7 (22%) þessara staða tóbak til ungmenna yngri en 18 ára.
Þær verslanir sem seldu tóbak í þessari könnun voru: Samkaup Grindavík, Samkaup Njarðvík, Kasko Keflavík, Sparkaup Sandgerði, Biðskýlið Njarðvík, Olíufélagið – Aðalstöðin og Ungó. Öllum verslunum var þann 24. nóvember sl. sent bréf um niðurstöðu könnunarinnar. Þær verslanir sem gerst höfðu brotlegar fengu jafnframt tilkynningu að til meðferðar væri að áminna þær fyrir brot á tóbaksvarnalögum. Öllum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf embættisins. Engar athugasemdir hafa borist. Í könnuninn var aldur afgreiðslufólks einnig kannaður. Í einu tilviki reyndist afgreiðslumaður ekki hafa náð 18 ára aldri og var það í Kasko Keflavík.
Heilbrigðisnefnd Suðurnesja ákvað á síðasta fundi sínum að veita Samkaup hf. áminningu fyrir ítrekuð brot á tóbaksvarnalögum í verslununum Kasko í Keflavík og Sparkaup Sandgerði, segir á vef Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.