Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

22 milljónir króna frá Menningarráði Suðurnesja til 32 verkefna
Laugardagur 8. október 2011 kl. 00:01

22 milljónir króna frá Menningarráði Suðurnesja til 32 verkefna

Menningarráð Suðurnesja veitti í dag styrki til 32 verkefna á Suðurnesjum. Styrkirnir hljóða upp á 22,1 milljón króna. Í ár var sótt um 49 verkefnastyrki upp á 46,9 milljónir. Heildarfjárhæð verkefnanna var metin af aðstandendum upp á 138,6 milljónir króna. Úr mörgum góðum verkefnum var að velja og urðu mörg áhugaverð verkefni að lúta í lægra haldi þetta árið en Menningarráð Suðurnesja hvetur þá umsækjendur að leggja ekki árar í bát, heldur sækja um að nýju fyrir næstu úthlutun.
Þann 15. apríl sl. var undirritaður nýr menningasamningur milli ríkisins og sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Markmiðið með nýjum samningi er að efla samstarf á sviði menningarmála á Suðurnesjum auk þess að stuðla að nýsköpun, fjölbreytni og fjölgun atvinnutækifæra á sviði menningar, lista og menningartengdrar ferðaþjónustu. Vegna þessa ákvæðis í samningnum lítur Menningarráð svo á að styrkúthlutanir í dag þurfi að endurspegla þann vilja stjórnvalda að styðja við atvinnuskapandi,  faglega unnin verkefni sem eiga möguleika á að stækka og skapa atvinnu í nútíð og framtíð. Með úthlutuninni í dag er leitast við að sýna þann vilja í verki. Einnig hefur Menningarráð ákveðið að fylgja þeirri stefnu sem lögð var á árinu 2010 að styrkir til verkefna verði í sem mestu samræmi við  óskir umsækjanda og fjárhagsáætlanir verkefna þó aldrei hærri en 50% af kostnaðaráætlun.  Jafnframt hefur Menningarráð Suðurnesja lagt áherslu á að styðja við samstarf sveitarfélaganna í sameiginlegum verkefnum, en staða menningarlífs á Suðurnesjum er nokkuð góð og hefur án efa jákvæð áhrif á ímynd Suðurnesja til langframa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Eftirfarandi verkefni hljóta styrki í október 2011.


1.500.000 – Bryn Ballett Akademían

Þróun og efling menningar á Suðurnesjum með kynning og kennsla á listdansi fyrir stúlkur og drengi í leik- grunn- og framhaldsskólum.  


1.500.000 – Óperuhátíð í Reykjanesbæ
Árleg sumaróperuhátíð í Reykjanesbæ. Stefnt  er á enn  frekara samstarf fjölmargra aðila  og öfluga og fjölbreytta markaðssókn á verkefninu.  


1.200.000 – List án landamæra á Suðurnesjum

Listahátíð sem haldin er einu sinni á ári með þátttöku fatlaðra og ófatlaðra listamanna, einstaklinga og hópa. Fimm sveitarfélög á Suðurnesjum.


1.200.000 – Safnahelgi á Suðurnesjum

Sameiginleg kynning á söfnum, setrum og sýningum sem eru í boði á Suðurnesjum. Verkefnið á sér stað utan hefðbundins ferðamannatíma. Fimm sveitarfélög á Suðurnesjum.


1.200.000 – Halarass – fjölskyldu og barnaleikrit
Leikritið er um vinina Björn og Jórunni.  Verkið er sjálfstætt framhald af fyrra verki GRAL hópsins, Horn á Höfði. Frumsýnt í nóvember 2012.


1.000.000 – Merkingar sögufrægra staða á Rosmhvalanesi
Söguskilti - Merkingar á völdum stöðum til kynningar fyrir ferðamenn í tengslum við undirbúning og gerð Ferðamannavegar með strandlengjunni frá Hafnavegi  að Garði.  


1.000.000 – Jólaóratoría
Verk fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit byggt á jólaguðspjallinu. Kynning á verkinu hér heima og erlendis. Frumflutt á árinu 2012.


1.000.000 – Vetrarvertíðin á Suðurnesjum
Safnsýning Byggðasafnsins í Reykjanesbæ í Duushúsum opnuð á sjómannadaginn 2012.


1.000.000 – Menningardagskrá Hlöðunnar
Íslenskir og erlendir listamenn mun halda sýningar í Hlöðunni. Námskeið í skapandi skrifum í tengslum við sýningarhald. Samstarf við grunn- og leikskóla.  


1.000.000 – Uppsetning nýrrar sýningar í Víkingaheimum

Gera á norrænni goðafræði betri skil í Víkingaheimum. Sýningin verður opnuð í mars.


800.000 – Jólasöngleikur

Leikfélag Keflavíkur setur á svið jólasöngleik í fullri lengd þar sem þátttakendur eru börn og unglingar á Suðurnesjum.


800.000 – Lærum og leikum með hljóðin

Verkefnið stuðlar að nýsköpun og fjölbreytni á sviði barnamenningar og áratuga þróunarvinnu á sérhæfðu framburðarefni fyrir börn.


800.000 – Þrjár listsýningar ársins 2012

Listasafn Reykjanesbæjar er eina listasafnið á Suðurnesjum og hefur sem slíkt ákveðnum skyldum að gegna. Verkefnastyrkur vegna leiðsagnar listamanna og starfsfólks, safnakennara  vegna skólaheimsókna og útgáfu veglegra bæklinga á íslensku og ensku vegna listamanna og verka þeirra.


800.000 – Listahátíð barna

Barnamenningarhátíð í Reykjanesbæ. Samstarf Listasafnsins, leikskóla og grunnskóla í Reykjanesbæ.


800.000 – Menntun og menning
Barnamenningarverkefni fyrir íslenska og erlenda nemendur til að leysa eftir heimsókn á sýningar í Kvikunni auðlinda- og menningarhúsi Grindavíkur.


700.000 – Þorbjörn gönguleiðir

Upphafskort við Þorbjörn. Áhugaverðar sögur, gönguleiðir, vegalengd og erfiðleikastig kynnt.


700.000 – Kynning á bókmenntaarfinum
Almenningsbókasöfn á Suðurnesjum. Sex bókmenntakvöld á árinu. Kynntir verða rithöfundar og skáld fyrri tíma


600.000 – Rúnar Júlíusson í mynd
Söfnun á einn stað  - myndbönd, sjónvarpsefni, tónleikar og viðtöl við Rúnar Júlíusson.  Gert aðgengilegt á rafrænu formi. Til kynningar í Rokkheimum Rúnars Júlíussonar .


500.000 – Skönnun á ljósmyndum úr safni Víkurfrétta

Á árunum 1983 til ársins 2000 voru allar ljósmyndir Víkurfrétta teknar á filmu. Mikið sögulegt myndasafn sem ætlunin er að veita aðgang að á vef Víkurfrétta.
 
   
500.000 – Menningar- og sögutengd gönguhátíð
Fjórar gönguferðir um verslunarmannahelgina þar sem markmiðið er að sameina útivist, holla og góða hreyfingu við fræðslu á menningu svæðisins.


500.000 – Skólasafnið í Norðurkoti

Í Norðurkoti verður sett upp sýning á munum og rituðum heimildum sem segja frá skólagöngu barna í Vatnsleysustrandarhreppi  um 1900 – 1920.


500.000 – Vísna og vitakvöld  

Tónlistarveisla á sviði vísna- og þjóðlagatónlistar. Ásamt annarri fjölbreyttri menningardagskrá þessu tengt.


400.000 – Lifandi gallerý Tobbu

Sýningasalur og opin vinnustofa til námskeiðahalds. Lifandi gallerýi er ætlað að virkja fólk af svæðinu til listsköpunar bæði  íslensku og erlendu áhugafólki.


400.000 – Saga slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli
Saga slökkviliðsins er saga Suðurnesja meðan á dvöl  Varnarliðsins stóð.


400.000 – Saga bæjarins  í myndum á vefnum
Valdar myndir sem þykja lýsa vel þróun bæjarins frá elstu myndrænu heimildum um bæinn til síðustu aldamóta. Byggðasafn Reykjanesbæjar gerir verkefnið aðgengilegt almenningi.


400.000 – Mannskaðar á Miðnesheiði
Miðnesheiðin er ein af mannskæðustu heiðum landsins. Verkefnastyrkur  vegna uppsetningu minnisvarða um þá sem látið hafa lífið á Miðnesheiði í aldanna rás.


300.000 – Gospelkór í Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Samstarf kirkna á Suðurnesjum.  Verkefnið hefur forvarnargildi og er hugsað til að virkja ungt fólk til þátttöku í heilbrigðu og mannbætandi menningarstarfi.


300.000 – Jólabærinn Grindavík
Samstarf aðila í verslun, þjónustu og menningu í Grindavík á aðventu u menningardagskrá og viðburði.


300.000 – Margs er að minnast frá Suðurnesjum
Ljósmyndaskönnun og ljósmyndasýning á myndum af Suðurnesjum á árunum 1982-1990
      
 
300.000 – Sungið um æskuna

Tónleikar þar sem fjallað er um æskuna frá ýmsum sjónarhornum ásamt fræðslu um lag og ljóð. Sungið verður um leiki, leikföng, gæludýr, óþekkt, prakkarastrik, vöggu- og bullljóð.


200.000 – Menningartengt efni fyrir grunnskólabörn

Barnamenningarverkefnið Grallarasögur. Hver bók er tileinkuð ákveðnum stað eða efni þar sem ferðamannastaðir eru vel kynntir.


100.000  – Hagyrðingakvöld
Kvikan Auðlinda- og menningarhús stendur fyrir hagyrðingakvöld í október.



Svartir og hvítir svanir frá BRYN ballett akademíunni glöddu augu gesta Menningarráðs Suðurnesja í dag. VFmyndir/hilmarbragi