200 störf gætu skapast á Keflavíkurflugvelli
Til verða 120 til 200 störf við flugvélamálun á Keflavíkurflugvelli, ef nýsköpunarverkefni sem unnið er að verður að veruleika. Með áætluðum afleiddum störfum myndi þessi vinnustaður skapa mörg hundruð störf á vinnumarkaði Suðurnesja.
Verkefnið er enn á undirbúningsstigi. Unnið er að viðskiptaáætlun og fjármögnun.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að frumkvöðull fyrirtækisins, Hjalti Kjartansson bílamálari, hafi lengi gengið með þá hugmynd í maganum að koma upp málningarverkstæði fyrir flugvélar hér á landi. „Flugheimurinn stækkar ört og stöðugt eiga sér stað breytingar. Ég tel að mikil tækifæri felist í þessari starfsemi,“ segir Hjalti.
Hugmyndin er að koma verkstæðinu upp í flugskýli 885 á Keflavíkurflugvelli, „stóra flugskýlinu“ sem svo er nefnt, en það er í eigu ríkisins og hefur staðið ónotað frá því Varnarliðið fór. Ekki hefur verið gengið frá samningum um notkun á húsnæðinu.
mbl.is