200 milljónir í tvö hringtorg á Reykjanesbraut
Alþingi samþykkti rétt fyrir jól breytingar á fjárlagafrumvarpi næsta árs þannig að 200 milljónum verður varið í gerð tveggja hringtorga við Reykjanesbraut á næsta ári. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis, segir alla nefndarmenn og þá fulltrúa Vegagerðarinnar sem funduðu með nefndinni hafa verið sammála um mikilvægi þess að setja hringtorgin upp á árinu. Hringtorg verða sett upp við gatnamót Þjóðbrautar að Reykjanesbraut annars vegar og Aðalgötu og Reykjanesbrautar hins vegar. Framkvæmdir við gatnamót Hafnavegar og Reykjanesbrautar munu hefjast árið 2018.
Nú rétt fyrir jól samþykkti Alþingi tveggja og hálfs milljarða auka framlag til viðhalds vega sem Vegagerðin úthlutar eftir þörfum. Silja Dögg kveðst vongóð um að hluti af þeim fjármunum renni til viðhalds á Reykjanesbraut.