Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

200 kvenfélagskonur funda í Reykjanesbæ
Þær Salome, Fríða og Ína eru allar í Kvenfélagi Keflavíkur. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 28. september 2012 kl. 13:34

200 kvenfélagskonur funda í Reykjanesbæ

Mikill kvennafans verður í Reykjanesbæ um helgina þegar 36. landsþing Kvenfélagasambands Íslands verður haldið í Kirkjulundi, safnaðarheimili Keflavíkurkirkju dagana 28. til 30. september. Gert er ráð fyrir að um 200 konur sæki þingið alls staðar að af landinu. Gestgjafar landsþingsins er Kvenfélagasamband Gullbringu- og Kjósarsýslu, KSGK. Undir þeim merkjum starfa 10 kvenfélög og hafa undirbúningsnefnd og kvenfélagskonur haft í nógu að snúast. Víkurfréttir hittu að máli þrjár kvenfélagskonur, þær Salome Kristinsdóttur, Fríðu Bjarnadóttur og Ínu D. Jónsdóttur, sem hafa verið að undirbúa þingið.

Yfirgripsmikil dagskrá
Yfirskrift landsþingsins í Keflavík er „Félagsauður og heilsa - hönd í hönd“. Undirbúningur fyrir þingið hefur staðið í um ár, enda að mörgu að hyggja. Dagskráin er yfirgripsmikil en þar verða m.a. flutt nokkur framsöguerindi. Una María Óskarsdóttir, varaforseti Kvenfélagasambands Íslands mun flytja erindið „Félagsauður, kvenfélagastarf og heilsa“. Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, flytur erindið „Þú getur þetta. Hver sagði að þetta yrði auðvelt?“. Þá flytur Guðrún Jónsdóttir frá Stígamótum erindið „Frelsi kvenna til athafna og að fylgja draumum sínum til að breyta og bæta samfélagið“.

Kosið um nýjan formann
Þær Salome, Ína og Fríða sögðu að mikil vinna liggi á bak við þingstörfin en í stað hefðbundins hópastarfs nú verði unnið með svokallaða „Open space-aðferð“ sem er tækni til að nota í breiðum og drífandi hóp þar sem tekist er á við margvísleg og hvetjandi viðfangsefni. Á þinginu verður kosið til forseta  KÍ. Formaður KSGK, Sigríður Finnbjörnsdóttir, og varaforseti KÍ, Una María Óskarsdóttir, gefa báðar kost á sér en fráfarandi forseti er Sigurlaug Viborg. Landsþing er haldið 3 hvert ár.

Hjá Kvenfélagi Keflavíkur eru haldin skemmtikvöld og þá er alltaf haldið jólabingó og páskabingó. Þá eru haldnir fræðslufundir og einnig tískusýningar. Ein af fjáröflunum Kvenfélags Keflavíkur er árleg aðventuhátíð fyrir eldra fólk í bænum. Gestir aðventuhátíðarinnar borga ekki neitt en kvenfélagskonur sækja styrki víða til að halda hátíðina.

Félagsfundi frestað um viku
Starfið hjá Kvenfélagi Keflavíkur fer fram í húsi Rauða krossins við Iðavelli en þar heldur félagið sína fimm fundi á ári. Byrjað er í október og fundað einu sinni í mánuði fram í desember þegar jólafundurinn er haldinn. Í janúar er fundarfrí en byrjað aftur í febrúar og fundað þá og í mars. Í apríl er svo árlegur hattafundur félagsins. Þá heldur félagið 17. júní kaffi og fer einnig í eina góða ferð á ári til að efla félagsandann.

Vegna landsþingsins um komandi helgi er októberfundi Kvenfélags Keflavíkur frestað um eina viku og verður haldinn 8. október. Félagskonur eru hvattar til að mæta og taka með sér gesti.

Móttaka í Víkingaheimum
Svo við snúum okkur aftur að landsþinginu um komandi helgi, þá vilja þær stöllur koma á framfæri sérstöku þakklæti til Árna Sigfússonar bæjarstjóra og Valgerðar Guðmundsdóttur menningarfulltrúa Reykjanesbæjar fyrir þeirra aðstoð. Árni verður með móttöku í Víkingaheimum á laugardaginn. Þá vilja þær einnig koma á framfæri þökkum til allra sem gáfu gjafir sem verða í happdrætti á skemmtikvöldi þingsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024